150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

jólakveðjur.

[18:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna þakka forsetum Alþingis fyrir samstarfið í vetur og ekki síst fyrir samstarf við þingflokksformenn. Þá vil ég sérstaklega þakka starfsfólki Alþingis fyrir góð störf og fúslega veitta aðstoð. Þessi hópur sem starfar við að láta þingið ganga upp og starfsemina alla frá degi til dags er einstaklega hjálpsamur og ljúfur við okkur alþingismenn og fyrir það þökkum við.

Jólin eru fyrir marga tími ljóss og friðar, tíminn til að hitta ættingja og vini, tíminn til að hlaða batteríin og heita á nýja árið. Vonandi geta sem flestir landsmenn átt gleðileg jól en við vitum að það er hvorki sjálfsagt né öruggt að svo sé.

Við alþingismenn komum saman á ný í janúar þar sem við munum halda áfram að skiptast á skoðunum og gera okkar besta fyrir landsmenn því að þótt okkur greini á um margt er það örugglega sameiginlegt markmið okkar allra.

Förum heim og höldum jól,

friði óskum heims um ból.

Brátt mun aftur hækka sól,

við sjáumst þá í þessum stól.

Ég ítreka þakkir til forseta og starfsfólks og óska þeim og þingmönnum öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Ég bið þingmenn að taka undir orð mín og rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]