151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta.

[13:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. 72% stúdenta vinna til að stunda nám. Það sem er kannski merkilegast er að það kemur fram hjá stúdentum að frá 1. janúar 2010 hafa stúdentar, með lögum um atvinnuleysisbótarétt, greitt 4 milljarða í atvinnuleysistryggingagjöld án nokkurs bótaréttar, 4 milljarðar er niðurstaða útreikninga og þess vegna gera stúdentar skýrar kröfur um sanngjörn og viðunandi kjör hjá Menntasjóði námsmanna og rétt til atvinnuleysisbóta til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Í gegnum kórónuveirufaraldurinn hafa aðgerðir stjórnvalda ekki verið miðaðar við þann stóra hóp sem stúdentar mynda og geta ekki talist haldbærar lausnir til lengri tíma. Þannig eru þeir látnir standa eftir á sama tíma og unnið er hörðum höndum við að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins á öðrum sviðum samfélagsins. Langtímalausnir í átt að fjárhagslegu öryggi fyrir alla stúdentahópa eru nauðsynlegar og stúdentaráð áréttar kröfu sína um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu hjá Menntasjóði námsmanna. Pólitískur vilji verður að vera til staðar til að tryggja námsmönnum fjárhagslegt öryggi.

Ég spyr eins og stúdentar: Eiga stúdentar ekki betra skilið? Er þetta ekki Covid-mál? Eru þeir ekki að missa vinnunni út af Covid? Er ekki kominn tími til að grípa alla sem hafa orðið fyrir þessum hörmungum, atvinnuleysi, og eiga jafnvel ekki fyrir húsaleigu og ekki fyrir mat? Það hlýtur að vera tilgangurinn. Ef við ætlum að hjálpa einhverjum vegna Covid hljótum við að reyna að hjálpa öllum, er það ekki?