151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að taka upp málefni námsmanna en ég hlýt að minna á að málefni þeirra hafa verið í forgrunni hjá ríkisstjórninni, bæði með því að styðja mun betur við háskólastigið en áður var gert með auknum framlögum til háskólanáms og rannsókna og vísinda og með því að grípa til sérstakra Covid-tengdra aðgerða síðasta sumar sem ég hlýt líka að minna hv. þingmann á. Þær miðuðu annars vegar að því að tryggja stúdentum sumarstörf við hæfi í samvinnu við sveitarfélögin og hins vegar var Nýsköpunarsjóður námsmanna stórefldur. Þegar gripið var til þeirrar aðgerðar mátti sjá alveg gríðarlegan áhuga hjá stúdentum að nýta sér það að ráðast í verkefni tengd námi sínu á launum.

Menntasjóður námsmanna er sannarlega ekki Covid-tengt úrræði heldur bara hluti af stefnumörkun ríkisstjórnarinnar til að koma betur til móts við námsmenn í þessu landi. Það frumvarp var samþykkt hér á Alþingi á síðasta þingi og snýst um það að hluti af framfærslu námsmanna er núna styrkur en ekki lán. Það stenst því auðvitað enga skoðun þegar hér er talað um að stúdentar hafi verið skildir eftir. Það er sannarlega ekki svo. Fjölmörg mál sem ríkisstjórnin hefur verið að vinna að koma einmitt til móts við þennan hóp. Þá er ég ekki að tala um almennar aðgerðir sem gagnast ungu fólki, til að mynda ungu fólki með börn sem hefur fengið að njóta hærri barnabóta, skattalækkanir sem gagnast fyrst og fremst hinum tekjulægri o.s.frv. Vissulega hafa stúdentar verið hluti af stóru myndinni. Það er auðvitað svo að fleiri sækja nú nám en nokkru sinni fyrr samkvæmt nýjustu tölum frá háskólastiginu sem bendir til þess að margir hafi ákveðið að ráðast í nám á þessum skrýtnu tímum sem við lifum, kannski einmitt vegna atvinnuástandsins.