151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:18]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þann 29. desember sl. hófst langþráð bólusetning gegn Covid-19 á Íslandi þegar tæplega 10.000 skammtar af bóluefni frá Pfizer bárust til landsins. Bólusetningin gekk vel og á þremur sólarhringum voru tæplega 5.000 manns úr öllum heilbrigðisumdæmum landsins bólusett. Ljóst er að heilbrigðiskerfið hér á landi er vel í stakk búið til að sinna þessu viðamikla verkefni. Bóluefnaskammtar frá framleiðendunum Pfizer og Moderna eru farnir að berast reglulega hingað, frá Pfizer vikulega og frá Moderna á tveggja vikna fresti. Í febrúar munu bætast við skammtar frá AstraZeneca hljóti bóluefnið markaðsleyfi eins og stefnt er að. Það myndi þýða að hingað til lands bærust 30.000 skammtar, þ.e. bóluefni fyrir 15.000 manns, en gera má ráð fyrir að í lok mars verðum við búin að bólusetja 35.000 manns. Við þurfum að vera viðbúin því að bóluefni muni berast til landsins í einhverjum skömmtum og að bólusetning muni eiga sér stað hægt og bítandi á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs.

Hér eru nokkrar staðreyndir: Eins og þekkt er hefur Evrópusambandið gert samninga við sex lyfjafyrirtæki sem unnið hafa að þróun bóluefnis gegn Covid-19. Ísland hefur þegar lokið gerð samninga við fjóra lyfjaframleiðendur en það eru AstraZeneca, Pfizer, Moderna og Janssen. Þá er samningagerð Íslands við framleiðandann CureVac langt komin og gert er ráð fyrir að samningur verði undirritaður í byrjun febrúar. Af þessum sex hafa bóluefni tveggja fyrirtækja fengið markaðsleyfi í Evrópu, áðurnefndra fyrirtækja Moderna og Pfizer. Þá er fyrirhugað að Evrópska lyfjastofnunin, EMA, gefi út álit vegna efnisins frá AstraZeneca föstudaginn 29. janúar, í lok þessarar viku, og má gera ráð fyrir að bóluefnið verði komið með markaðsleyfi í Evrópu sama dag.

Yfirlit yfir stöðu samninga um bóluefni er að finna á vef heilbrigðisráðuneytisins, eins og ég hef áður gert þinginu grein fyrir. Ég vænti þess að allir þingmenn fylgist vel með enda er á síðunni yfirlit sem uppfært er í rauntíma. Bóluefni frá Pfizer hefur þegar farið í dreifingu hérlendis og í gær höfðu 4.387 einstaklingar fengið fyrstu bólusetningu og 4.787 lokið bólusetningu að fullu. Samningar Íslands við Pfizer tryggja okkur skammta fyrir rétt um 250.000 einstaklinga. Bólusetning með efni frá Moderna hófst 12. janúar og nú hafa 1.259 einstaklingar hérlendis fengið fyrstu bólusetningu af því efni en enginn þá seinni, en áætlunin gerir ráð fyrir að til landsins berist 1.200 skammtar hálfsmánaðarlega út mars. Staðan er sem sagt þannig að að loknum gærdeginum var búið að bólusetja 4.789 einstaklinga á Íslandi að fullu og 5.646 einstaklingar höfðu fengið fyrsta skammt bóluefnis þannig að 10.495 hafa þá í lok gærdagsins verið bólusett að hluta eða öllu leyti.

Bóluefni frá AstraZeneca bíður afgreiðslu Evrópsku lyfjastofnunarinnar eins og fram hefur komið og er gert ráð fyrir að markaðsleyfi verði gefið út nú á föstudaginn og framleiðandinn hefur nefnt að bóluefnið fari í dreifingu tveimur vikum síðar. Þá er gert ráð fyrir að efnið verði komið á markað 12. febrúar. Magn og dreifingaráætlun fyrir Ísland liggur ekki fyrir en líkur standa til að Ísland fái 13.800 skammta í febrúar og eftir þann tíma muni enn fleiri skammtar berast hingað til lands óreglulega.

Skipulag bólusetningar og dreifing hefur í raun og veru verið prufukeyrð og við sjáum að okkar kerfi gengur vel. Yfirsýn og skipulag þeirrar framkvæmdar er í höndum sóttvarnalæknis en framkvæmdin sjálf er í höndum sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar um allt land. Bólusetning hefur gengið vel, eins og fram hefur komið, og hún hefur farið fram jafnskjótt og bóluefni berst, sem er gríðarlega mikilvægt því að sums staðar í löndunum í kringum okkur sjáum við að þó að bóluefnin hafi borist til viðkomandi lands hafa þau ekki náð að dreifast með viðeigandi hætti til almennings í landinu.

Fyrsti áfangi bólusetningarinnar, sem fór fram síðustu daga fyrir áramót, gekk vel. Þar var byrjað á því að bólusetja framlínustarfsmenn í heilbrigðiskerfinu, þau sem eru í mestri hættu á að smitast af Covid-19, íbúa á hjúkrunar- og öldrunarheimilum, svo og aldraða og sjúka í dagdvalarrýmum. 12. janúar var svo haldið áfram að bólusetja þá hópa og þau sem stóðu eftir í framlínunni, t.d. lögreglu- og sjúkraflutningamenn. Það er gert ráð fyrir að bólusetja þá hópa sem eru í mestri hættu á að smitast vegna starfa sinna í þessari viku eða 27. janúar. Í samræmi við ákvörðun sóttvarnalæknis, varðandi það að bólusetja elsta aldurshópinn, var byrjað á þeim aldurshópum nú 21. janúar. Byrjað var á því að bólusetja eldri einstaklinga sem þiggja þjónustu, þ.e. þau sem búa í sértækum úrræðum og íbúakjörnum, en eftir stendur að bólusetja þau sem búa heima og eru ekki í þjónustu frá opinberum aðilum. Þeim hópi verður boðin bólusetning eftir aldursröð. Þá skal það jafnframt nefnt að sóttvarnalæknir heldur alltaf eftir skömmtum fyrir óvænt tilvik eins og fyrir þau sem nauðsynlega þurfa bólusetningu, sem gæti t.d. komið til vegna sjúkdómsmeðferðar. Þá hefur verið unnið hörðum höndum að því að útvega sprautur og nálar sem nýta bóluefnin betur og þingheimur kannast við umræðuna um það.

Það er rétt að nefna hér aukaverkanir en fyrir helgi höfðu Lyfjastofnun borist 137 tilkynningar um aukaverkanir vegna bólusetningar gegn Covid-19. Af þeim tilkynningum voru 128 ekki metnar alvarlegar en níu tilkynningar voru metnar alvarlegar og þar af voru sjö dauðsföll og eitt tilfelli alvarlegs ofnæmis. Nú hefur embætti landlæknis gefið út ráðleggingar um hvernig skuli staðið að bólusetningu í elsta aldurshópnum.

Það er mikilvægt, virðulegi forseti, að við íbúar í landinu hikum ekki við að láta bólusetja okkur. Þótt þróun bóluefnis hafi gengið með methraða hefur ekki verið hlaupið yfir nein öryggisstig í þróun þess. Ástæða þess að ferlið hefur gengið svo hratt sem raun ber vitni er öll sú reynsla sem áunnist hefur í vísindasamfélaginu um allan heim við fyrri þróun bóluefna auk ríflegs fjármagns sem lagt hefur verið í framleiðsluna. Evrópusambandið hefur til að mynda nú þegar lagt mikið fjármagn til þróunar bóluefnis gegn Covid-19 og nú njótum við góðs af því þar sem bóluefni eru farin að berast til landsins.

Fregnir berast nú af því að framleiðsluvandi hafi og muni leiða til þess að afhendingarmagn frá Pfizer og AstraZeneca verði mögulega minna en til stóð á næstu vikum en gert er ráð fyrir að þær tafir sem hafa orðið muni fyrst og fremst hafa áhrif á næstu vikur en verði síðan unnar upp. Þetta er auðvitað ekki nákvæmlega eins og við myndum vilja hafa það, en aðalatriðið er að enn eru allar líkur á því að við munum ná að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa árs, sem hefur verið markmiðið frá upphafi. Ég bind miklar vonir við að við náum því markmiði en til að bóluefni nýtist sem best þurfum við áfram að gæta sóttvarna innan lands og á landamærum og snúa bökum saman.