151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:26]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslu hennar og vil taka undir orð hennar um nauðsyn á samstöðu og að halda úti sóttvörnunum. Ef ég gríp á lofti það síðasta sem hæstv. ráðherra sagði var það efnislega á þá leið að hún gerði ráð fyrir því að þorri þjóðarinnar yrði bólusettur fyrir mitt árið. Ég sé að hæstv. ráðherra kinkar kolli þannig að ég heyrði greinilega rétt. Þetta er reyndar líka haft eftir henni í fjölmiðlum í dag, til að mynda er á vísi.is haft eftir hæstv. ráðherra, rétt eins og hún sagði í ræðu sinni, að yfirvöld hefðu haft væntingar um að ná að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir um mitt ár. Ætla ég að vísa í þessa frétt, með leyfi forseta:

„Ráðherra segir enn gert ráð fyrir því þrátt fyrir óvissu.“ — Áfram segir ráðherra: „Við sjáum ekki í raun og veru afhendinguna mikið fram í tímann. Það er að segja hvernig þetta verður í mars, apríl og maí. En við gerum ráð fyrir og upplýsingarnar sem við höfum fengið óformlega gera ráð fyrir hliðrun innan fyrsta ársfjórðungs þannig að það ætti að koma meira í mars.“

Herra forseti. Þessi yfirlýsing kallar á frekari skýringar og frekari rökstuðning en fram hefur komið. Yfirlýsing um að allt sé í óvissu kallar ekki á neinn rökstuðning en þegar notuð eru orð eins og þorri þjóðarinnar, fyrir mitt ár, upplýsingar fengnar óformlega þá kallar það á frekari skýringar. Ósk hæstv. ráðherra um samstöðu er að sjálfsögðu vel tekið en hún verður að styðjast við gagnsæi í vinnubrögðum (Forseti hringir.) og miðlun upplýsinga.