151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[14:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég hef lagt mig í líma við það í gegnum þessa vinnu alla saman að það væri sem mest gagnsæi í því en vil hins vegar segja það við hv. þingmann að undirbúningur undir umræðu hér í þinginu er í formi talpunkta og alls konar upplýsinga en er ekki útprentuð skýrsla sem er gefin út á þingi sem þingskjal. En ég lýsi mig tilbúna til þess hvenær sem er að koma á fund velferðarnefndar.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um það hvers megi vænta varðandi afléttingar sóttvarnaráðstafana. Ég held að í meginatriðum getum við gert ráð fyrir því að afléttingar séu í öfugri röð við herðingar, ef svo má að orði komast. Mikilvægast af öllu er auðvitað að við séum í þeirri stöðu að daglegt líf sé sem næst því sem eðlilegt er, þá erum við að tala um nám, skóla og vinnu. Hins vegar er það alveg örugglega þannig að um langt skeið inn í framtíðina, svo lengi sem við faraldurinn er að glíma yfir höfuð í heiminum, komum við til með að þurfa að gæta almennt að sóttvörnum, því sem stundum hafa verið kallaðar einstaklingsbundnar sóttvarnir sem er bara að gæta að fjarlægð og handþvotti o.s.frv. Ég held að við höfum bara öll gott af því ef marka má útbreiðslu annarra veiru- og bakteríusjúkdóma. Ég held að það muni verða veruleikinn enn um hríð. Ég held að við þurfum að hafa þolinmæði gagnvart því að við getum ekki höggvið þetta í stein. Um leið vil ég nefna að það er mjög mikilvægt fyrir okkur hér á Íslandi að faraldurinn er undir ákveðinni stjórn á meðan við erum að fara inn með bólusetningarnar og þar stöndum við umtalsvert betur en mörg lönd í kringum okkur standa og eru í töluvert harðri glímu.