151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur. Í níunda forgangshópi eru 1.000 manns. Það er staðan. Mér finnst vel koma til greina að skoða þennan hóp sérstaklega. En ég treysti líka sóttvarnalækni mjög vel til að gera það og til þess að hafa þau rök á takteinum sem hv. þingmaður vísar sérstaklega til. Það breytir því ekki hvernig við orðum þetta umfjöllunarefni, það er alltaf þannig að það seinkar þá einhverjum öðrum. Ef við setjum einhverja framar þá setjum við einhverja aðra aftar. Það er bara þannig.

COVAX-samstarfið er mikilvægt og snýst um að afla bóluefna fyrir allan heiminn og líka fyrir lágtekjuríki. Við erum öflugir samstarfsaðilar í COVAX og tökum þátt í því. Þar munum við áfram leggja okkar af mörkum vegna þess að eins og hér hefur áður komið fram í umræðunni þá snýst þetta ekki bara um að hver sé sjálfum sér næstur, heldur það að allar þjóðir heims eiga í sömu baráttu.