151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[22:50]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að fylgja þessu máli eftir, annars fór hv. þm. Karl Gauti Hjaltason mjög vel yfir það og bætti við fréttum frá því hann flutti það síðast um skýrslu, sem var mjög merkilegt að hlusta á og merkilegt að lesa þá skýrslu. Eitt kom mér í hug þegar ég var að hlusta á ræðuna og eins þegar ég var að lesa málið en það er hvað við erum, ef við getum orðað það svo, aftarlega á merinni í því að flokka sorp. Mikil verðmæti eru í því að flokka sorp og búa til úr þeirri flokkun verðmæti. Mér hefur komið það mikið í hug vegna þess að ég er utan af landi, frá stað sem við köllum höfuðborg Snæfellsness, Stykkishólmi, en þar er sorp flokkað og til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið er að málum þar. En svo þegar ég kom hingað suður til Reykjavíkur þá er þetta bara í hálfgerðu, ég segi kannski ekki skötulíki en það er alla vega ekki mikil flokkun á sorpi hér og ég lít á það sem mikla verðmætasóun. Það væri mikil verðmætasköpun í því að flokka sorpið mun betur og á ekki að vera svo mikið mál að hrinda því í framkvæmd. Auðvitað þarf að búa til aðstöðu til þess en hún er ekki nógu mikil.

Svo er það útflutningur á sorpi. Hann er alveg ótrúlegur og ótrúlegt að ekki hafi verið brugðist við þeirri tillögu að koma á fót sorpbrennslustöð til að ekkert sorp fari til útlanda og að við sjáum um sorpmál okkar sjálf og allri urðun verði hætt á einhverju tímabili. Menn hafa miklar áhyggjur af því og það er alveg sannað mál að mikil hætta er á því að spilliefni fari út í umhverfið þar sem sorp er urðað. Það er mjög vont til þess að hugsa hvað við erum skammt á veg komin. Ég hef sagt það einhvern tímann í ræðustól að það að urða sorp er svipað og að sópa ruslinu undir teppið þegar maður er að taka til heima hjá sér. Og útflutningur á sorpi er eins og að henda ruslinu í garðinn hjá nágranna sínum. Það er í raun og veru bara sóðaskapur og slóðaháttur að við skulum ekki vera komin lengra því að þetta vandamál kom ekki upp í gær.

Hv. þingmaður fór mjög vel yfir þetta mál og fór vel í gegnum greinargerðina auk þess sem hann bætti við því sem kom fram í þessari skýrslu sem kom út í vetur eða í haust. Ég hef svo sem ekki rosalega miklu við það að bæta, en eitt er, eins og kom fram í ræðunni hjá hv. þingmanni, að við það að brenna sorp framleiðum við orku, bæði hita og/eða rafmagn og brennsluofnar eru orðnir þannig í dag að þeir menga ekki nálægt því eins mikið og þeir gerðu fyrir einhverjum árum síðan.

Ég rakst á frétt í Fréttablaðinu frá síðasta sumri og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Um það bil 1.500 tonn af sorpi eru flutt úr landi í hverjum mánuði og þar er það brennt til orkuframleiðslu. Einsýnt er að útflutningurinn muni aukast. Sorpa hefur ekki enn hafið útflutning á sorpi, en allar líkur eru á að fyrirtækið geri það á næsta ári. Sorpa mun hætta urðun sorps í Álfsnesi fyrir árslok 2023.“

Íslenska gámafélagið hefur til þessa verið sá aðili sem flytur það sorp út sem fer til útflutnings og er brennt erlendis. Sú orka er notuð til að framleiða rafmagn og hita. Við erum að flytja út sorp til þess að aðrir geti notað orkuna sem frá þessu kemur. Það er mjög miður og eins að við getum ekki bara séð um þetta sjálf, burt séð frá því að við erum líka að flytja frá okkur verðmæti.

Eigum við ekki að segja að allt sé þegar þrennt er? Þetta er í þriðja skipti sem þessi tillaga er borin fram og vonandi að í þetta skipti beri hún árangur og ráðherra komi með nýjar tillögur til Alþingis í vor og þá verði hægt að hefjast handa eins fljótt og hægt er að koma þessum málum í lag.