151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[23:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það kannski kristallast aðeins í umræðunni hér í kvöld hve Íslendingar eru skammt á veg komnir í úrgangsmálum. Það heyrðist t.d. í máli síðasta ræðumanns sem var alveg furðulega gamaldags og sett þannig fram að hv. þingmaður var bara staðsettur í túninu heima og sá ekki yfir bæjarhólinn. Í þessari tillögu, sem hér er lögð fram í þriðja sinn, horfum við yfir bæjarhólinn. Við horfum til þess að kannaður verði möguleiki á því að reisa hér öfluga sorpbrennslustöð sem nýst geti öllu landinu og í ofan í kaupið framleitt orku til annaðhvort raforkuframleiðslu eða húshitunar eða hvort tveggja á köldu svæði. Það kom fram spurning um hver ætti að fjármagna þetta, og ég segi aftur: Þetta er furðulega gamaldags viðhorf. Við erum núna að grafa 200.000 tonn af sorpi á ári, urða. Þetta minnir mig svolítið á það sem krakkar gerðu hér í den þegar þau voru beðin um að laga til í herberginu sínu. Þá var töluverður freistnivandi, þegar búið var að sópa saman einhverju ryki og drasli á gólfinu, að lauma því undir næsta rúm. Þá hvarf ruslið, alla vega þangað til viðkomandi var tekinn í bólinu og mamma tók í hnakkadrambið á viðkomandi sem fann að þetta var ekki nógu vel gert. Mér finnst stundum eins og meðhöndlun Íslendinga á sorpi sé svipuð. Við urðum sorpið og það hverfur og við hugsum: Nú er bara málið leyst. Á meðan erum við að misnota grunnvatn og fnyk leggur yfir næstu byggðir þar sem urðun fer fram. Það var talað um gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, sem er vissulega mikil framkvæmd. En ég held að það hefði verið mjög æskilegt, út af þeirri framkvæmd, að búið hefði verið að koma framleiðslunni í lóg. Notkun á metani er töluverð eða getur verið töluverð, t.d. hjá sveitarfélögunum hér á höfuðborgarsvæðinu, sem reka dálítið af strætisvögnum. Ég held að það hefði verið gráupplagt ef menn hefðu klippt það saman að endurnýja strætókostinn að hluta, ég veit að það er búið að setja suma af þeim í rafmagn, og nýta þar með þessa auðlind sem búið er að kosta til svo miklu til að búa til. Mjög merkt umhverfisskref, en eins og stundum þá veit vinstri höndin ekki hvað sú hægri er að gera.

Við búum aftur á móti við það að uppi í Álfsnesi leggur fnyk yfir næsta nágrenni, jafnvel fok á rusli. Maður hefur séð myndir af Fíflholti á Mýrum þar sem rusl fýkur yfir mel og þar sem vargur er og meindýr. Rétt hjá Blönduósi er stórt sár í landslaginu þar sem verið er að urða sorp. Við lentum í því um daginn, því miður, að hér varð fjártjón út af riðu. Þá kom í ljós að það er ekki til almennileg aðstaða til að brenna þann úrgang. Eina stöðin á Íslandi sem er útbúin til að gera það hafði ekki undan, herra forseti. Þessi skammsýni er svo furðuleg, og ég ætla ekki einu sinni að minnast á útflutninginn því að hann er eiginlega allt of sorglegur til að ræða hann hér.

Ég man eftir að við síðustu umræðu á þessu máli var hér í umræðunni þingmaður Vinstri grænna. Þegar minnst var á brennslu sagði hann að ekki væri hægt að brenna sorp á Íslandi út af eiturefnum sem sleppa út í loftið og óþef o.s.frv. Ég sagði nú við viðkomandi: Jú, en við erum að flytja út sorp, m.a. til nýrrar sorpbrennslustöðvar á Amager, nánast í miðri Kaupmannahöfn, þar sem er verið að brenna nokkur hundruð tonn af sorpi árlega. En þessum ágæta þingmanni Vinstri grænna var alveg sama um það af því að við vorum búin að flytja út óþefinn og eitrunarútblásturinn. Nú er þessi ágæti þingmaður, ég ætla ekki að nefna hann hér, hann veit hver hann er, hluti hóps sem telur sig horfa hnattrænt á umhverfisáhrif. En þessi ágæti þingmaður var líka í túninu heima og sá ekki yfir bæjarhólinn og var þess vegna ekki einu sinni tilbúinn til að ljá máls á því að kanna möguleikana, eins og hér er gert ráð fyrir, á því að reisa alvörusorpbrennslu og brenna úrgang eins mikið og hægt er. Það kann vel að vera að það verði eitthvert gjall eða aska eftir þegar svona lagað er brennt, en það verða ekki 200.000 tonn á ári, næsta víst að það verður ekki.

Hér kom líka ágætt innlegg frá hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni sem býr í Stykkishólmi. Ég held satt að segja að að öllum stöðum ólöstuðum á Íslandi sé Stykkishólmur kannski hvað lengst kominn í því að flokka sorp. Það er alveg hárrétt sem hann sagði, hv. þingmaður, að í flokkuðu sorpi leynast peningar eða verðmæti. Ég get sagt það hér, ég held ég hafi farið með þessa sömu rullu við síðustu umræðu, að ein stærsta hótelkeðja á Íslandi fór í það fyrir nokkrum árum að flokka sorp. Magnið sem tekið var frá fyrirtækinu, heildarmagnið, dróst saman um, ef ég man rétt, 40%, bara á örfáum mánuðum eða misserum. Þetta fyrirtæki, sem er Svansvottað, gerði sér mat úr þeim úrgangi sem það flokkaði og gat komið í verð. Þá er kannski komið að því að svara spurningunni sem fram kom hjá hv. þingmanni, sem ég var að benda á að hefði verið föst í túninu heima: Hver á að borga? Hver á að fjármagna? Jú, það skyldi þó ekki vera að flokkunin gæti greitt fyrir einhverju af þessu og það skyldi nú ekki vera að í afurðinni af brennslunni, þ.e. hitanum, rafmagninu, leyndust verðmæti?

Herra forseti. Við getum alla vega, held ég, öll verið sammála um að við getum ekki haldið áfram að vinna þessa hluti óbreytt. Við getum ekki haldið áfram að urða hér sorp þar sem flestir urðunarstaðir eru þegar komnir að þolmörkum og eru margir hverjir reknir á undanþágu vegna þess að sorpmagnið er það mikið að það er komið fram yfir upphaflegt leyfi sem staðirnir höfðu til að urða sorp. Ég segi aftur, herra forseti: Afstaða okkar Íslendinga til umhverfismála markast af tvískinnungi. Við erum að urða 200.000 tonn af sorpi og það er ekkert mörgum sem finnst það eitthvert tiltökumál. En við erum að banna plastpoka sem eru brotabrot af öllum þeim úrgangi sem til fellur á Íslandi. Hér kom fram tillaga um að endurvinna plast, sem aðeins er byrjað á í Hveragerði og þar við jarðhita sem er mjög magnað fyrirbæri. En þá verðum við að horfa á það að plast er ekki bara plast. Það eru svo margar tegundir af plasti að ekki er víst að nóg falli til af því til þess að endurvinna og sumt plast er bara alls ekki þeirrar gerðar að þægilegt sé að endurvinna það. Það er í sjálfu sér og í eðli sínu flókið mál að endurvinna þá afurð. En auðvitað er allt hægt og auðvitað eigum við að stefna að því að gera það. Ég hef líka verið fylgismaður þess að við reynum að endurvinna ál sem við flytjum út, áldósir í tugþúsundum tonna. Einhvern tíma var gerð tilraun til þess að gera það sem var, held ég, andvana fædd.

Það þýðir ekki, herra forseti, að við eigum að hætta og gefast upp. Við eigum auðvitað að þaulkanna þessi mál vegna þess að við höfum alla möguleika hér til að vinna þessi mál vel. Við erum jú einangruð og við erum í heldur strjálbýlu landi þannig að það er nóg til af stöðum þar sem hægt er að setja upp hátæknisorpbrennslu án þess að hún sé fólki og fénaði til ama. Ég skora á þingmenn, þó að þeir hafi ekki sýnt þessari umræðu mikinn áhuga, að koma til liðs við málið í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og afgreiða það fljótt og vel þannig að við getum tekið það aftur til umræðu í þingsal og afgreitt síðan.