152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu og hækkana á húsnæðiskostnaði.

330. mál
[18:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir þessa góðu framsögu. Nú er verðbólga komin upp í 6,2% og hefur ekki verið meiri í áratug. Hún er fyrst og fremst knúin áfram af hækkun húsnæðisverðs. Íbúðaverð á landinu öllu hefur hækkað um 16,6% á einu ári. Meðalkaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 5 milljónir kr. á aðeins tveimur mánuðum.

Þetta er afbrigðilegt ástand. Það á sér fyrst og fremst tvær meginskýringar. Önnur skýringin lýtur að framboðshlið hagkerfisins, þeirri staðreynd að ríkisstjórnir síðustu ára hafa heykst á því að ráðast í afgerandi aðgerðir til að auka framboð húsnæðis og liðka fyrir uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir lágtekju- og millitekjufólk. Við erum enn að súpa seyðið af niðurlagningu verkamannabústaðakerfisins um aldamótin. Stofnframlög ríkisins til almenna íbúðakerfisins duga hvergi nærri til að skapa þá kjölfestu sem þarf á húsnæðismarkaði til að tryggja félagslegan stöðugleika.

Hin skýringin lýtur að eftirspurnarhliðinni. Frá því að faraldurinn skall á hafa þúsundir manns, þriðjungur ungt fólk og talsvert af fólki með lítið tekjusvigrúm, hlustað á skilaboð stjórnvalda og tekið hvatningunni til aukinnar skuldsetningar og leið og hömlum hefur verið létt af útlánum bankanna og eiginfjárkröfur verið lækkaðar. Niðurstaðan er 450 milljarða viðbótarskuldsetning heimilanna síðan faraldur hófst. Nær allar lánveitingar hafa ratað inn á húsnæðismarkaðinn þar sem verð hefur svo auðvitað rokið upp. Það var ekki fyrr en í lok september 2021 sem Seðlabankinn greip til kælingaraðgerða á fasteignamarkaði með reglum um hámark greiðslubyrðar fasteignalána. Sá hópur fólks sem skuldsetti sig fyrir íbúðarkaupum eftir að kórónukreppan skall á, m.a. fyrstu kaupendur sem fóru inn á fasteignamarkað með hátt raunverð og lága vexti, sér núna fram á stóraukna greiðslubyrði vegna verðbólgu og vegna skarpra vaxtahækkana. Hin sem misstu af lestinni, fólkið sem nýtti sér ekki eða gat ekki nýtt sér þann glugga sem þarna skapaðist til að stinga sér inn á eignamarkaðinn, horfa upp á íbúðaverð sem er 25% hærra en fyrir tveimur árum.

Ekki bætir úr skák að ríkisstjórnin hefur enn ekki efnt loforð sem voru gefin við gerð lífskjarasamningsins 2019 um réttarbætur fyrir leigjendur sem er enn einn hópurinn sem fer halloka. Breytingar hafa ekki verið gerðar á húsaleigulögum til að hemja hækkun leiguverðs. Fyrir vikið er Ísland áfram með miklu veikari varnir fyrir leigjendur en mörg þeirra velferðarþjóðfélaga sem við erum vön að bera okkur saman við.

Stjórnvöld bera ábyrgð á því að hafa hvatt fólk til stóraukinnar skuldsetningar á einstökum tímum í sögu vaxta á Íslandi og þannig má í rauninni segja að almenningur hafi skuldsett sig um 450 milljarða fyrir hvatningu stjórnvalda. Þessi viðbótarskuldsetning hefur auðvitað orðið til þess að auka fjármálaóstöðugleika í landinu, eins og margir hafa bent á, m.a. flutningsmaður þessa máls. Að sama skapi hefur það gert heimilin berskjölduð fyrir því herta aðhaldsstigi sem við horfum núna upp á og birtist í hærri vöxtum.

Þetta er bakgrunnur þeirrar þingsályktunartillögu sem við flytjum hér í dag og ástæða þess að við leggjum hana fram ásamt fleiri flokkum í stjórnarandstöðu. Við leggjum sem sagt til að ríkisstjórninni verði falið að grípa til mótvægisaðgerða vegna ástandsins í efnahagslífinu, annars vegar með sértækri niðurgreiðslu á húsnæðiskostnaði viðkvæmra hópa og hins vegar með dreifingu húsnæðisgreiðslna til skamms tíma fyrir stærri hóp heimila til að milda höggið af hröðum viðsnúningi vaxta og verðbólgu. Það þarf að hafa hraðar hendur til þess að koma í veg fyrir að þessi viðsnúningur lendi með fullum þunga á tekjulægri heimilum.

Nú er það lögbundið hlutverk Seðlabankans að stuðla að stöðugu verðlagi með þeim stjórntækjum sem hann hefur yfir að ráða. Það er hins vegar verkefni stjórnmálanna að tryggja að sveiflur í efnahagslífinu komi ekki harkalega niður á viðkvæmum hópum, t.d. með stuðningi í gegnum tilfærslukerfin okkar, með úrræðum í samvinnu við fjármálastofnanir og með hömlum á hækkun leiguverðs. Þetta er allt saman hægt að gera án þess að létta beinlínis á aðhaldsstigi opinberra fjármála í heild. Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Það er hægt að gera þetta án þess að ríkisfjármálin rói í aðra átt en Seðlabankinn ef fyrir hendi er bara rétt pólitísk forgangsröðun. Samhliða stuðningsúrræðunum sem við erum að leggja til væri t.d. hægt, til að sporna gegn hvers kyns þensluáhrifum, að skrúfa niður skattstyrki til efri millitekjuhópa, auka álögur á hópana sem eyða og þéna allra mest í samfélaginu. Til eru ýmsar leiðir til að draga úr þenslu. Það er skynsamleg hagstjórn, það er það sem pólitík snýst um, að forgangsraða.

Skömmu eftir að við í Samfylkingunni lögðum fram þessa þingsályktunartillögu steig hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra fram og viðurkenndi með mjög afgerandi hætti í viðtali í Morgunblaðinu að það væri þörf á aðgerðum, annaðhvort af hálfu bankanna sjálfra eða með inngripi stjórnvalda gegnum skatt- og bótakerfið — eins og við erum kannski frekar að kalla eftir hérna, við erum í rauninni að kalla eftir hvoru tveggja — til þess að verja ungt fólk og tekjulægstu hópana fyrir áhrifum verðbólgu og vaxtahækkana. Hæstv. ráðherra kallaði eftir þessu og sagði líka að í rauninni þyrfti að hækka bankaskatt ef bankarnir skiluðu ekki sjálfir þessum ofurhagnaði til viðskiptavina sinna. Svo stakk hún líka upp á því að lagður yrði sérstakur hvalrekaskattur á sjávarútvegsfyrirtæki og sagði að það væri stuðningur við þessar hugmyndir í þingflokki Framsóknarflokksins og meðal ráðherra í ríkisstjórn. Þetta eru auðvitað stórtíðindi.

Í morgun fór ég fram á það á fundi efnahags- og viðskiptanefndar ásamt fleiri þingmönnum minni hlutans að haldinn yrði opinn fundur um þessar hugmyndir menningar- og viðskiptaráðherra. Það verður sem sagt þannig að fjórir ráðherrar verða kallaðir til fundar til að fara yfir þessi mál. Annars vegar menningar- og viðskiptaráðherra sjálf og hins vegar þrír oddvitar ríkisstjórnarinnar. Ég bind vonir við að þar fáum við á hreint og fáum greinargóðar upplýsingar um það hvaða aðgerðir nákvæmlega það eru sem eru í burðarliðnum, sem sagt aðgerðir í þágu tekjulægri heimila sem fara halloka vegna hækkandi verðbólgu og hækkandi vaxtastigs. Við fáum þá líka fram á forræði hvers þessar aðgerðir eru, hvar er verið að vinna þær, að frumkvæði hvers þær eru og ef ekki stendur til að gera þetta hvar hnífurinn standi þá í kúnni o.s.frv. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fá þetta fram og að það ríki ákveðinn skýrleiki um það hver nákvæmlega efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er þegar kemur að skuldsettum heimilum og heimilum á leigumarkaði o.s.frv.

Þessi þingsályktunartillaga okkar sem hv. þm. Kristrún Frostadóttir mælti hér fyrir og er höfundur að er framlag okkar Samfylkingarinnar og fleiri flokka til umræðunnar. Með þessu erum við að kalla eftir því að það verði gripið strax til afgerandi aðgerða fyrir tekjulág heimili í ljósi hækkandi verðbólgu og hækkandi húsnæðiskostnaðar og ég skora á ráðherra ríkisstjórnarinnar og þingheim allan að hafa hraðar hendur.