152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan, ég er mjög hlynnt þessu máli sem mér finnst þó reyndar ganga allt of skammt í öllu því umhverfi sem við erum að ræða um, að treysta einstaklingnum til að hafa venjulegt aðgengi að lögmætu efni sem er áfengi. Mér finnst hins vegar miður og ég vona að það hafi verið misskilningur — en þegar ég segi að ég bara geti ekki meir þá nenni ég ekki lengur þessari, ég ætla ekki að tala um sýndarmennsku, pólitík sem við erum að verða vitni að sem er alltaf ætluð til heimabrúks. Ráðherrar og þingmenn, sérstaklega ráðherrar Framsóknarflokksins, eru með alls konar yfirlýsingar sem er bara ætlað að skora í tilteknum málum og fylgir engin alvara og er enginn þungi á bak við þau orð. Ég vona þess vegna að hv. þingmaður sé að þessu af einurð og að hún átti sig á því að hún hefur ekki bara stuðning síns flokks heldur annarra flokka hér á þingi sem eru ekki með henni í ríkisstjórn. Það væri mikil reginskissa ef flutningsmenn frumvarpsins áttuðu sig ekki á því að til þess að koma því hingað inn í þingsal, sem skiptir öllu máli fyrir framgang málsins, þá þarf að tala við aðra þingmenn og fá þá til að sýna stuðning og vinna með flutningsmanni til að þetta mál geti komið hingað. Það er súrt að geta ekki eftir öll þessi ár fengið að gera það, hvort sem er í þessu máli eða öðrum málum sem ætti að vera svo sjálfsagt fyrir okkur að taka til umræðu hér og til atkvæðagreiðslu, allt frá minni málum til stórra mála, það er hægt að flokka þetta undir minni mál þó að það sé risastórt prinsippmál um frelsi einstaklinganna og hvernig samfélagi við viljum búa í. Hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson gat um einmitt það eftir að hafa búið erlendis og það eru mjög margir í þessum þingsal sem hafa búið í útlöndum og átta sig alveg á því að það er alveg hægt að hafa þetta mikla frelsi. Þetta er bara hluti af lífsgæðum fólks. Ef við trúum því raunverulega að við eigum ekki að vera með forræðishyggju út um allt í samfélaginu þá er þetta sjálfsagt og eðlilegt skref. En það þarf líka að hugsa um aðferðafræðina í þessu. Aðferðafræðin er ekki sú að halda málinu hjá sér bara til þess, eins og ég segi, að nota það til heimabrúks heldur er þetta risamál þess eðlis að það verður að tengja aðra flokka inn í það. Öðruvísi fáið þið það ekki hingað inn í þingsal. Ekki nema þingflokkur Vinstri grænna sé búinn að kúvenda í málinu. Við vitum það alveg að ef forystuflokkur í ríkisstjórn er á móti því að eitthvert mál komi hingað inn þá kemur það ekki hingað inn. Það er bara þannig.

Það er eitt mál sem höfum fengið hér á síðustu árum, það rifjaðist upp þegar ég sat og hlustaði á hv. þingmann tala áðan, eitt mál nýlega sem ég man eftir og í raun á tíma mínum hér, þar sem þingsalurinn fékk að greiða atkvæði og það var út af mannanafnanefnd. Við í Viðreisn lögðum fram tillögu um að leggja niður mannanafnanefnd. Málið var fullklárað í nefndinni og síðan kom að samkomulagi flokkanna undir þinglokin og ég lagði áherslu á að fá það mál til umræðu í þingsal. Þá var mér tjáð: Þú veist að þetta mál verður fellt. Ég sagði: Fínt, þá verður það bara fellt. Þá vitum við líka hverjir, sem hafa talað óspart um frelsið, um að liðka fyrir og einfalda kerfið, ekki síst í þágu frelsisins, fylgja því síðan ekki eftir hingað inn í þingsal. Tillagan um mannanöfnin kom hingað inn og það voru stjórnarflokkarnir sem greiddu atkvæði á móti, þar á meðal þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, stór partur af honum. Ekki hv. þingmaður en ég er að segja stór partur af honum. Þannig er þetta. Það var tryggt að ef málið færi inn í þingsal þá yrði það fellt. Nógu margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn málinu til þess að það yrði fellt, mál sem maður hefði haldið að væri einmitt ekki bundið við meiri hluta og minni hluta, mál sem á að fara þvert yfir flokka og á að leyfa þingmönnum að greiða atkvæði um samkvæmt sannfæringu sinni. Við fáum allt of sjaldan tækifæri fyrir þessi mál sem fá bara að fljóta. Þau geta flotið, já, já, þvert á flokka eins og þetta mál sem við erum að ræða um.

Ég held að það sem við ættum að sammælast um, ég og hv. þingmaður og fleiri hér sem hafa talað af mikilli visku, finnst mér, er að taka þetta mál út úr þingnefnd. Það er næsta skref. Ég hefði einmitt haldið að hv. þingmenn myndu fagna því. Það væri risaskref í átt að því aukna frjálsræði sem við höldum að sé best fyrir okkar frjálsa og góða íslenska samfélag. En það er bara þannig. Það er áfram gakk í þessu máli og ég er til.