152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

áfengislög.

334. mál
[19:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, alls ekki. Það er einmitt það dásamlega við það að vera þingmaður að leggja fram þingmál af því að þú trúir því sem þú ert að leggja fram, þú trúir að það verði betra fyrir samfélagið. Þú ert að sinna þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera þingmaður með því að leggja fram þingmál, hvort sem eru fyrirspurnir til að upplýsa mál og upplýsa almenning, grafa sig betur ofan í það sem er að gerast eða einfaldlega þingsályktunartillögu eða frumvarp eins og við erum að tala um hér. Hugsjónirnar eru svo dásamlegar á bak við hvert einasta þingmál. Þess vegna er svo mikil synd hvað klafarnir og byrðarnar eru þungar hérna. Við fáum ekki tækifæri til þess í þingsalnum að greiða atkvæði um þessar hugsjónir okkar. Þó að þær skarist þvert á flokka þá er það ekki leyft. Það er hægt að horfa yfir allan þingsalinn og ímynda sér, þegar þingsalurinn er fullur, þennan kraft sem býr á bak við hvern einasta þingmann, þá snertingu sem hann hefur upplifað í kosningabaráttu, í vinnustaðaheimsóknum, í ræðum, í riti eða hvað það er. En svo kemur allt þetta gamla íhaldssama verklag og við fáum ekki þetta tækifæri hér í þingsal. Það er það sem ég er að tala um að við verðum að fara að breyta og reyna að koma okkur upp einhverri reglu um þ a.m.k., þó að það geti verið óþægilegt fyrir stjórnarflokka eða einhverja flokka í stjórnarandstöðu, þá er það bara þannig. En það er okkar skylda líka að greiða atkvæði eftir okkar sannfæringu og samvisku og við verðum bara að virða það ef einhver er á rauðu í þessu máli, þá virðum við þær skoðanir og gerum ekki lítið úr þeim. En við þurfum að fá að vita þær. Það er þetta sem ég er að tala um, þannig að við verðum ekki hérna næstu 20 ár, ef ég verð hér í 20 ár í viðbót, þannig að þessi ræða verði ekki flutt aftur eftir 20 ár.