152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

87. mál
[19:22]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Í ljósi undangenginna atburða er kannski rétt að við tökum loksins almennilega umræðu um stöðu og framtíð Íslands í alþjóðakerfinu og samstarfi þess. Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum núna er lögð fram af því að við í Viðreisn teljum löngu tímabært að vinna úttekt á stöðu landsins okkar í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem við leggjum þessa tillögu fram og ég vil ítreka að þetta er mikilvægara en aldrei fyrr. Ég ætla að leyfa mér að segja að við höfum verið nokkurn veginn eini flokkurinn sem leyfði sér að snerta á utanríkismálum í einni eða annarri mynd í kosningabaráttunni fyrir fimm mánuðum, hvort sem við ræddum um Evrópusambandið eða varnarmál og það er ekkert alltaf endilega það vinsælasta af öllu.

Ég vil líka geta þess í framhjáhlaupi að við erum að leggja fram þingsályktunartillögu sem verður vonandi birt í kvöld eða á morgun sem mun einmitt snerta á því að auka alþjóðasamstarf okkar á sviði öryggis- og varnarmála og eru tillögur þar að lútandi um það hvernig við ætlum að efla öryggi okkar og varnir og dýpka okkar samstarf, ekki síst Evrópuþjóða. Við verðum að halda áfram af fullum krafti, bæði að efla samstarf við Bandaríkin og NATO en ekki síður Evrópuþjóðirnar og það gerum við best með fullri aðild.

Við viljum sjá utanríkisráðherra eiga samráð við utanríkismálanefnd Alþingis í þessu skyni, að gera úttekt á stöðu okkar í fjölþjóðlegri samvinnu og við viljum gjarnan sjá að skipuð verði nefnd sérfræðinga sem yrði falið að gera úttekt og leggja mat á hvernig styrkja megi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar. Þar fari m.a. fram mat á því hvernig hagsmunum Íslands á sviði menningar, stjórnmála, varna og efnahags væri best borgið í fjölþjóðlegri samvinnu.

Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur Ísland verið þátttakandi í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Tilgangurinn hefur verið sá að styrkja stöðu landsins í samfélagi þjóðanna í menningarlegum efnum, stjórnmálalegu tilliti, að því er varðar varnir og öryggi og að því er tekur til efnahags og viðskipta. Óumdeilt er að þetta fjölþætta samstarf hefur styrkt fullveldi landsins og bætt efnahag okkar Íslendinga.

Í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar stóð Ísland á krossgötum. Þá varð smám saman ljóst að yfirlýsingin í sambandslögunum frá 1918 um ævarandi hlutleysi gat ekki staðist breytta heimsmynd. Breið samstaða var þó um að halda í hlutleysið þar til hernám Breta varð til þess að við Íslendingar tókum afstöðu með þeim þjóðum sem stóðu okkur næst í hugmyndafræðilegum skilningi.

Í framhaldinu gerðist Ísland aðili að Bretton Woods-samkomulaginu um fjölþjóðlegt gjaldmiðlasamstarf og aðild að Sameinuðu þjóðunum fylgdi í kjölfarið. Síðan gerðist Ísland eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins sem við sjáum ekki síst í dag að var eitt mesta gæfuspor sem við höfum stigið í sögu okkar í utanríkismálum.

Íslendingar tóku þátt í stofnun Norðurlandaráðs, hafa verið aðilar að hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti frá lokum sjöunda áratugar síðustu aldar og eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO). Í byrjun áttunda áratugarins urðu Íslendingar aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, og síðan aðilar að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES og síðan með þátttöku í Schengen-samstarfinu árið 2001.

Öll þessi skref voru á sinn hátt svar við breyttum aðstæðum. Þau lýstu því hvernig við aðstæður þess tíma var talið skynsamlegt að leita skjóls og tryggja hagsmuni landsins í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi. Allt þetta samstarf hefur þróast og breyst í tímans rás. Pólitískt og efnahagslegt vægi aðildar að einstökum samtökum hefur í sumum tilvikum aukist en minnkað í öðrum.

Þær utanríkispólitísku ákvarðanir sem liggja að baki þessum skrefum í fjölþjóðasamstarfi spanna tímann frá upphafi kalda stríðsins til loka þess. Í bráðum þrjá áratugi hefur ekkert nýtt skref verið stigið að frátalinni Schengen-aðildinni. Það er lengsta kyrrstöðutímabilið í þessum efnum á lýðveldistímanum.

Heimsmynd kaldastríðsáranna var tiltölulega einföld. Tveir kraftar tókust á, annars vegar vestræn ríki undir forystu Bandaríkjanna og hins vegar sósíalistaríki undir forystu Sovétríkjanna. Hugmyndafræðin greindist í tvennt með sama hætti, þar sem annars vegar voru hugsjónir lýðræðis og frjálsra viðskipta en hins vegar hugmyndaheimur alræðis og sósíalisma og við sjáum alræðið vera að ná tökum á Rússlandi núna aftur.

Fyrst eftir að kalda stríðinu lauk töldu margir að heimsmálin hefðu einfaldast. Lýðræði og alþjóðavæðing hefðu einfaldlega borið sigurorð af sósíalismanum. Þær krossgötur sem þjóðir heims stóðu á eftir fall Berlínarmúrsins 1989 virtust því ekki í fyrstu gefa tilefni til að endurmeta fjölþjóðlegt samstarf.

En sú einfalda heimsmynd sem við blasti á þessum tímamótum varð aldrei að veruleika. Nú þrjátíu árum síðar stöndum við enn á krossgötum. Heimsmyndin er miklu flóknari en áður. Togkraftarnir eru fleiri og hugmyndafræðin sundurlausari og við sjáum það ekki síst núna þegar Úkraínustríðið stendur yfir, þá erum við samt að sjá það, þó að hugmyndafræðin hafi um tíma verið sundurlausari, að línurnar eru samt að skerpast. Það er sterkt að sjá lýðræðisríki, vestræn ríki, Evrópusambandið, standa mjög fast á sínu gegn alræði Pútíns og með Úkraínu.

En þegar horft er á togkraftana í þeirri heimsmynd sem við blasir standa Bandaríkin enn fremst en þau byggja ekki á myndun bandalaga með sama hætti og áður. Samvinna Bandaríkjanna við bandamenn sína byggist í vaxandi mæli á þeirra eigin hagsmunum en í minna mæli en áður á sameiginlegum hugsjónum og hagsmunum eða samstöðu með þeim. Kína verður hugsanlega forysturíkið á alþjóðavettvangi á næstu áratugum. Því næst kemur Evrópusambandið, sem hefur vaxið hratt og er miklu áhrifameira en áður en glímir líka vissulega við ákveðinn innri vanda.

Hugmyndafræðilegt baksvið þessarar breyttu heimsmyndar er líka fjölskrúðugt og fjarri því eins einfalt og á tímum kalda stríðsins. Segja má að Evrópuhugsjónin sé ávöxtur vestrænna lýðræðishugmynda kalda stríðsins. Kínverskum einræðiskapítalisma vex stöðugt ásmegin. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa hugmyndir um frjáls viðskipti færst frá fjölþjóðasamvinnu til tvíhliða samninga þar sem þeir sterku hafa jafnan undirtökin. Þetta er varhugaverð þróun, virðulegur forseti, fyrir smærri ríki þar sem almennt er talið að þau njóti skjóls frá ægivaldi stærri ríkja innan vébanda fjölþjóðlegrar samvinnu. Loks má nefna þjóðernispólitískar hugmyndir sem birtast í ólíkum myndum frá einu ríki til annars. Til viðbótar gætir víða vaxandi trúarbragðatogstreitu. Þessir straumar hafa einnig borist til Íslands og er því brýnt fyrir okkur að kortleggja stöðuna og hagsmuni okkar með það fyrir augum að tryggja að staða Íslands í fjölþjóðasamstarfi verði ekki nýtt sem skiptimynt í innanlandspólitík.

Utanríkispólitísk staða landsins mótaðist á árum kalda stríðsins og er nær óbreytt. Spurningin er þessi: Hefur heimsmyndin ekki breyst svo mikið á undanförnum árum að segja megi að við stöndum enn á ný á krossgötum? Er það ekki tilefni til þess að endurmeta hvernig við tryggjum pólitískt skjól, varnarlegt skjól og efnahagslega hagsmuni landsins best þegar horft er til framtíðar?

Ég vil geta um nokkur álitaefni í þessu sambandi:

Þegar gjaldmiðillinn hrundi og bankarnir féllu 2008 kom í ljós að Ísland átti lítið skjól. Afstaða Norðurlanda mótaðist af afstöðu annarra, eins og Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Við vorum ekki fullgildir aðilar að Evrópusambandinu þrátt fyrir aðild að innri markaðnum og sóttum því ekki pólitískan styrk þangað. Öfugt við reynslu kaldastríðsáranna höfðu Bandaríkin skellt í lás. Atlantshafsbandalagið var ekki sá pólitíski bakhjarl sem það hafði til að mynda verið í þorskastríðunum. Þetta vekur þá spurningu hvort Ísland þurfi ekki í ljósi breytinga að huga að frekara pólitísku skjóli.

Kína verður forysturíki heimsins á næstu áratugum. Ísland þarf því eins og aðrar þjóðir að eiga mikil og góð samskipti við Kínverja. Ólík hugmyndafræði skapar þó augljósar hættur í því efni. Rétt er að minna á í því sambandi að Sovétviðskiptin á fyrri hluta kaldastríðsáranna hefðu ekki verið möguleg án verulegra pólitískra áhrifa Sovétríkjanna á íslensk málefni nema vegna þess pólitíska skjóls sem aðildin að Atlantshafsbandalaginu veitti. Í tímans rás hefur pólitískt skjól Evrópuríkja á hinn bóginn í auknum mæli færst frá Atlantshafsbandalaginu til Evrópusambandsins. Mikilvægt er að svara þeirri spurningu hvort öflugri eða dýpri fjölþjóðleg samvinna geti styrkt stöðu Íslands í samskiptum við Kína og önnur voldug ríki, hvort smærri ríkjum sé ekki betur borgið í stóru ríkjasambandi og njóti þar meira öryggis og skjóls.

Eftir að Ísland tók upp sjálfbæra fiskveiðistjórnun eiga hagsveiflur í minna mæli en áður rætur að rekja til sjávarútvegsins. Þær eru í ríkari mæli tengdar við sveiflur lítils gjaldmiðils. Spurningin um að leita meiri stöðugleika í evrópska myntbandalaginu hefur því verið áleitin. Í því sambandi má benda á að tenging dönsku krónunnar við evru hefur verið ein helsta forsenda fyrir stöðugleika og hagvexti, m.a. hjá frændum okkar í Færeyjum. Einnig hefur verið nefnt að erfitt verði að jafna það misrétti sem við búum við þar sem sumir geta staðið utan krónuhagkerfisins en aðrir ekki nema með mynt sem er gjaldgeng í milliríkjaviðskiptum. Þessi aðstöðumunur hefur leitt til aukinnar eignamisskiptingar. Við verðum að fara að horfast í augu við það. Ísland hefur tvívegis verið aðili að fjölþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi, fyrst að norræna myntbandalaginu og síðar Bretton Woods-samstarfinu. Báðum tímabilum fylgdi góður hagvöxtur, nýsköpun og erlend fjárfesting.

Ég vil síðan geta loftslagsmálanna. Þau skipta gríðarlega miklu máli þegar Bandaríkin hafa fjarlægst fjölþjóðasamstarf á þessu sviði en Evrópusambandið náð markverðum árangri. Bandaríkin hafa að vissu leyti lamað starf Norðurskautsráðsins í loftslagsmálum á sama tíma og Ísland fór með formennsku þar á síðasta ári. Það er ólíklegt að árangur náist í loftslagsmálum án fjölþjóðlegs samstarfs. Því er mikilvægt að svara þeirri spurningu hvernig Ísland geti best tekist á við loftslagsmálin í fjölþjóðlegu samstarfi.

Í heimi alþjóðavæðingar hafa fjölþjóðafyrirtæki vaxið svo hratt að ítök þeirra og áhrif ógna á marga lund fullveldi þjóða, stórra sem smárra. Evrópusambandið hefur náð lengra en önnur fjölþjóðasamtök í því að rétta hlut þjóðríkjanna gagnvart fyrirtækjasamsteypum á heimsvísu og er hægt að nefna mýmörg dæmi þess eðlis.

Vegna stærðar sinnar verða áhrif Íslands á alþjóðavettvangi alltaf takmörkuð. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu, Fríverslunarsamtökum Evrópu og Norðurlandaráði hefur á hinn bóginn sýnt að áhrif Íslands eru meiri þegar við eigum sæti við borðið. Með aðildinni að EES tókum við upp evrópska löggjöf sem er ráðandi á öllum sviðum þjóðarbúskaparins. Spyrja má hvort það myndi styrkja pólitískt skjól landsins í Evrópu og auka áhrif þess ef Íslendingar gerðust aðilar að Evrópusambandinu og sætu þar við sama borð og bandalagsþjóðir.

Álitaefnin, virðulegur forseti, eru hvergi tæmandi talin með þessu. Ég vil sérstaklega minna á að sú þingsályktunartillaga sem við erum að leggja fram, og verður vonandi birt ekki síðar en á morgun, tekur einmitt og dregur fram hversu mikilvægt það er að við leitum eftir því að fara í fulla aðild að Evrópusambandinu, ekki síst út frá varnar- og öryggishagsmunum þar sem þungi þeirra mun aukast mjög innan Evrópusambandsins og við getum ekki lokað augunum fyrir þessari spurningu. Við verðum að taka þessi mál mun fastari tökum og það er áhyggjuefni að við sjáum enga forystu þessarar ríkisstjórnar síðustu fjögur árin í þá veru að meta hvar íslenskum hagsmunum er best borgið. Það má einfaldlega ekki tala um utanríkismál, það má einfaldlega ekki gera það. Það er erfitt að ræða um forystu á sviði varnar- og öryggismála þegar forystuflokkurinn er algerlega andsnúinn NATO og síðan eru allir flokkarnir á móti Evrópusambandinu. Það má ekki minnast á Evrópusambandið, liggur við, í þessum sal núna þegar við þurfum á því að halda að hafa kjark og þor til þess að meta hvar hagsmunum okkar er best borgið. Við verðum að fara að gera það. En leiðsögnin og forystan kemur ekki frá ríkisstjórn Íslands.

Mér sýnist að breytt heimsmynd sýni val á milli tveggja leiða, þ.e. að halda áfram með tvíhliða samninga eða fara í fjölþjóðlegt samstarf í sterkari og ríkari mæli og það gerum við með fullri aðild að NATO, en við þurfum líka að huga að því hvernig við styrkjum okkar starf og aukum það, aukum okkar ábyrgð og framlag þar, ekki bara með því að taka á móti flóttafólki og sinna ákveðinni þjónustu og veita mannúð, vera með faðminn opinn, heldur ekki síður með það í huga hvernig við getum aukið okkar borgaralegu þjónustu og störf innan NATO.

Við erum, flutningsmenn, fylgjandi viðræðum um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við teljum að æskilegt væri að taka þær upp að nýju að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu og það á ekki að vera nein hætta fólgin í því að treysta þjóðinni fyrir því að meta hvort við eigum að fara áfram í viðræðurnar og klára þær. Ég er sannfærð um það að eins og staðan er núna í alþjóðamálum þá sé brýnna en nokkru sinni fyrr að við leggjum mat á þessa hagsmuni alla í þágu okkar Íslendinga, í þágu þeirra gilda sem við viljum standa fyrir, í þágu frelsis, lýðræðis og mannréttinda. Ég er sannfærð um að þeim gildum er betur borgið þegar við erum fullir aðilar að Evrópusambandinu og höfum sæti við borðið til að verja einmitt nákvæmlega þau gildi sem við viljum standa fyrir. Okkar rödd þarf að heyrast þar við borðið.