152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

87. mál
[19:37]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir góða framsögu varðandi þessa þingsályktunartillögu, í ætt við það sem við vorum að ræða áðan þarf kannski stundum að ýta málum áfram. Eins og staðan er hér á þingi núna er erfitt að fá fólk til að vera tilbúið til að ganga í Evrópusambandið, alla vega með ríkisstjórnarmeirihlutann sem nú er við völd. En ég er sammála hv. þingmanni um að hlutirnir hafa breyst og þróast og það þarf að hugsa þetta fjölþjóðasamstarf. Hv. þingmaður nefndi að hún vildi að farið yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið yrði í viðræður, eða áður en viðræðum yrði haldið áfram, eftir því hvernig menn líta á það. Mig langaði að heyra frá hv. þingmanni hvernig hún sæi fyrir sér þátttöku almennings í því ferli, þjóðaratkvæðagreiðslu áður en byrjað yrði að tala við ESB, þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að búið væri að tala við ESB. Ættum við að vera með þjóðaratkvæðagreiðslu um annað fjölþjóðasamstarf? Ef ég man rétt var engin þjóðaratkvæðagreiðsla um NATO árið 1949. Mig langar bara að fá að heyra hug hv. þingmanns um það.