152. löggjafarþing — 48. fundur,  8. mars 2022.

framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

87. mál
[19:40]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki líkja stöðunni sem við stöndum frammi fyrir núna við Ísland árið 1949. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt skref, að það hafi verið farsælt skref að vera hluti af varnarbandalaginu og ég held að sagan hafi sýnt það. Með því höfum við stuðlað að langvarandi friði í Evrópu þar til nú. Ég er sannfærð um að það hafi verið rétt skref. Þjóðaratkvæðagreiðsla — já, ég er fylgjandi því að við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég lagði fram tillögu í júlímánuði 2009, sem var felld af þáverandi meiri hluta Samfylkingar og Vinstri grænna, um að hafa þjóðina með í ráðum frá upphafi og þegar samningur lægi fyrir og greið upplýsingamiðlun hefði átt sér stað til almennings um eðli hans vildi ég sjá þjóðaratkvæðagreiðslu eftir það. Ég tel að með því hefðum við ekki komist í þá úlfakreppu sem við lentum síðan í 2009–2013 þegar við horfðum annars vegar upp á mjög einarðan og öflugan utanríkisráðherra, þáverandi þingmann Össur Skarphéðinsson, reyna að ýta málinu áfram á meðan Vinstri græn voru öll á móti. Þetta er eitt af þessum málum sem varð á endanum táknrænt. En óróleikinn hefði ekki verið til staðar hjá Vinstri grænum ef þjóðin hefði fengið að kjósa áður. Og þjóðin hefði sagt já. Það var, minnir mig, skoðun 70% þjóðarinnar að hefja ætti ferlið. Það hefði verið allt annað fyrir þáverandi ríkisstjórn að fara af stað í það ferli með samþykki í farteskinu. Þá hefðum við heldur ekki séð þessa tvo erfiðu póla eftir á. Já, ég er enn þeirrar skoðunar, þó að sumir segi að við eigum bara að ákveða þetta hér, að þjóðin verði að vera með í ráðum. Það þarf ekki langan tíma. Umsóknin er enn til staðar. Það þarf bara að ýta við henni og að mínu mati er það þjóðin sem getur gert það.