153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

Störf þingsins.

[14:43]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Við erum auðvitað á sama stað núna í þingstörfunum eins og oft rétt fyrir jól. Það er skammur tími til stefnu og einhverra hluta vegna leggur ríkisstjórnin mál þannig upp að það þarf að klára hér fullt af stórum og mikilvægum málum í einhverri tímapressu þegar í raun og veru er engin tímapressa. Við höfum tíma á næsta ári til að klára sum af þeim málum sem hér er verið að þrýsta á um að verði lokið fyrir jól. Það féll dómur í gær sem snýr að umræðu okkar hér um útlendingamálin. Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra fagnaði dómnum hér í þingsal í gær og það er út af fyrir sig gott hjá honum. En höfum hugfast að hann er um leið að fagna staðfestingu dómstóls á því að kerfið, sem ríkisstjórnin ætlar nú að herða til muna með nýjum lögum, er ómannúðlegt gagnvart fötluðu fólki sem er að flýja mikla neyð. Viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra við dómnum eru svo á þá lund að allt hafi verið fullkomlega löglega gert af því að mál fyrir dómi fresti ekki réttaráhrifum. Sem sagt: Stjórnvöld voru í fullum lagalegum rétti til að brjóta freklega á réttindum fatlaðs manns samkvæmt nýjum dómi. Ekki orð um að mögulega hefði verið betra að haga málum með þeim hætti að ekki þyrfti að kveða upp þennan áfellisdóm því að næg voru varnaðarorðin sem féllu í aðdragandanum og á meðan brottvísunin sjálf stóð yfir. Í þessu andrúmslofti ætlum við að afgreiða 2. umr. útlendingalaga á ofurhraða fyrir jól, ofan á þann fullkomna vafa sem leikur á því að málið standist stjórnarskrá, eins og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hefur bent á í umsögn sinni við málið.

Annað mál sem er síðan mjög brýnt að ná samstöðu um er sama marki brennt, það er of stórt og mikilvægt til að hægt sé að klára það núna fyrir jól og það er þjóðaröryggisstefnan. Það liggur alveg fyrir eins og málum er háttað núna að hún verður ekki kláruð í sátt allra flokka á svo skömmum tíma og þegar við erum að samþykkja þjóðaröryggisstefnu hlýtur það að liggja fyrir að við viljum að um hana sé sem breiðust sátt. Það vantar tíma og ráðrúm til að greina þessa stefnu miklu betur með hliðsjón af vörnum og þjóðaröryggishagsmunum þjóðarinnar, gerbreyttum heimi eftir innrás Rússa í Úkraínu. Þetta er eitthvað sem við verðum að hafa hugfast (Forseti hringir.) núna á síðustu metrunum. Færum þau mál sem geta beðið til að vinna þau betur.