153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[15:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum, um eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega upp á 60.300 kr., sem er frábært og ber að þakka vegna þess að í upphaflegri tillögu ríkisstjórnarinnar voru það ekki nema rétt rúmar 27.000 kr. sem áttu að fara til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Það var hækkað eins og við í Flokki fólksins gerðum kröfu um, við gerðum kröfu um 60.000 kr. eingreiðslu, uppreiknað samkvæmt vísitölu frá upphæðinni sem var í fyrra. Ríkisstjórnin ákvað þá að bæta við þannig að talan yrði ekki 60.000 kr. sléttar heldur 60.300 kr. Það er flott. En það sem okkur finnst sárt og óskiljanlegt snýr að því að við vorum með kröfu um að inn í þennan hóp kæmu líka verst settu eldri borgararnir. Það eru margar ástæður fyrir því að það ætti að þykja alveg sjálfsagt að þeir fengju líka að vera með í þessum hóp og það er í sjálfu sér engin rosa krafa vegna þess að heildarkostnaður þess að borga örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum þennan 60.000 kall er um 1,6 milljarðar. Ríkisstjórnin bætti 780 milljónum við upphaflegu töluna, þegar þau voru með rétt tæplega helminginn af þessu. Kostnaðurinn við það að setja verst settu eldri borgarana inn í dæmið er ekki nema brotabrot af þessu, ekki nema rétt innan við 15% af þessari upphæð sem er að fara til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Við erum að tala um 200–300 milljónir. Það er ekki komin nákvæm tala á það hversu margir þetta eru. En þetta er ekki nein óhemjuupphæð sem við erum að fara fram á. Eins og ég benti á í gær þá er svolítið skrýtið í þessu samhengi að ekki skuli vera hægt að finna þennan pening þegar hægt er að finna í einu ráðuneyti 150 milljónir bara einn, tveir og þrír og henda þeim í Kvikmyndasjóð, sem er bara hið besta mál. Ef það eru til 150 milljónir einhvers staðar til að auka framlag í Kvikmyndasjóð þá get ég bara ekki séð nein rök fyrir því að ekki sé hægt að finna aðeins meiri pening en það til þess að láta verst settu ellilífeyrisþegana fá 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust. Við erum að tala um hóp sem hefur farið í gegnum Covid án þess að fá krónu. Mér finnst það ótrúlega aum og léleg röksemdafærsla þegar stjórnarliðar koma hér upp aftur og aftur og benda á að ellilífeyriskerfið hafi verið endurskoðað fyrir einhverjum árum síðan. Eins og endurskoðun á kerfinu sé ávísun á það að allir ellilífeyrisþegar hafi það rosalega gott.

Það er einmitt út af þessu sem ég óttast það ótrúlega mikið þegar á að fara að endurskoða almannatryggingakerfið eða örorkukerfið. Ég held að það sé miklu betra fyrir ríkisstjórnina, ef hana langar að endurskoða eitthvað, að fara bara niður að Tjörn og skoða þar endurnar og henda svo þessu kerfi. Ekki fara að endurskoða eitthvert kerfi sem er miklu verra en nokkur garnflækja sem hægt er að búa til þegar verið er að prjóna og er órekjanleg, kerfi sem er svo arfavitlaust að það er farið að vinna gjörsamlega gegn þeim tilgangi sem því var ætlaður, algerlega búið að umvenda því. Kerfi sem átti að vera til að grípa fólk, aðstoða fólk og hjálpa fólki að lifa af í elli eða örorku er búið að snúast algerlega við. Það er orðið fátæktarkerfi. Það er búið að byggja kerfið þannig upp að það er vonlaust fyrir fólk sem er í lægstu tíundunum að lifa því það er vel undir fátæktarmörkum. Og snilldin við þetta — kannski ekki snilld, en það er ákveðin snilld hjá þeim sem byggja upp þetta kerfi að segja: Ég er að hjálpa þér með hægri hendinni en kem svo með vinstri hendinni og tek allt af þér til baka aftur. Og svo er sagt: Ég hjálpaði þér, þó að þú hafir ekki fengið þennan pening. Þetta er ótrúleg óskammfeilni og illa gert að fara svona með fólk.

Í þessu kerfi sem við erum að tala um núna er fólk sem lenti í búsetuskerðingum, eldri borgararnir. Það endurspeglar algerlega hugsanagang þessarar ríkisstjórnar. Þegar tekið var á því kerfi, búsetuskerðingunum — og það var ekki gert fyrr en umboðsmaður Alþingis hafði bent á galla í kerfinu og þetta stæðist ekki stjórnarskrá og lög — þá kom frábær hugmynd. Þarna vorum við með fólk á sínum tíma sem átti að lifa á einhverjum 50.000– 70.000 kr. á mánuði sem enginn getur og er bara ávísun á að viðkomandi þurfi að fara inn í félagsmálakerfið hjá sveitarfélögum til að fá eitthvað aðeins meira og var samt í sárafátækt. Það var ákveðið út frá ábendingu umboðsmanns Alþingis að fara í að endurskoða kerfið og það var lagt til, og það kom til velferðarnefndar, að þessir aðilar myndu fá lágmarksellilífeyri, að lægsta eining ellilífeyris yrði handa þeim. Ég gat alveg fallist á það, ég sagði að það væri alveg frábært og myndi stórlega hjálpa þessum einstaklingum. En það var of gott til að vera satt vegna þess að síðan var því laumað inn að þetta væri sennilega allt of mikið fyrir þennan hóp þannig að það yrði að taka 10% af þeim. Hann ætti að fá 10% minna en lægsta og lélegasta ellilífeyrinn sem hægt var að fá. Ég spyr mig enn þann dag í dag: Ef þú ert virkilega að hjálpa, hvernig í ósköpunum getur þú komið svona fram, að leyfa þér að fara 10% niður fyrir það sem er lélegast? Það er vitað mál að það sem er lélegast í þessu kerfi er undir fátæktarmörkum. Það dugði ekki til. Brotaviljinn gagnvart þessu fólki er svo innbyggður, virðist vera, í ríkisstjórnina og kerfið að þau ákváðu að dusta rykið af því sem allir flokkar á þingi voru búnir að lofa að afnema, krónu á móti krónu skerðingu. Dustuðu rykið af henni og skelltu henni á þennan hóp líka. Þetta er ofbeldi sem maður getur ekki lýst og getur ekki ímyndað sér, maður hefur ekki hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að gera þetta gagnvart þessu fólki. Það er eins og þetta séu ekki mannverur sem þeir eiga við. Ég efast um að það væri komið svona fram við dýr, það yrði allt brjálað. Þetta er svo mikið ofbeldi vegna þess að fólk getur ekki varið sig gagnvart þessu. Það sama á við um einstakling sem, eins og ég hef bent á, þarf að flýja leiguhúsnæði og fara í hjólhýsi eða sofa í bílnum sínum. Eins og það sé ekki nægileg refsing. Nei, þá kemur kerfið eina ferðina enn og rýkur upp og segir: Þú ert ekki með lögheimili, þú ert hvergi skráður. Við þurfum að refsa þér fyrir það. Tökum af þér heimilisuppbótina, þú hefur ekkert að gera með heimilisuppbót fyrst þú ert kominn út úr kerfinu og sefur í bílnum eða hjólhýsinu.

Mér er það gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna kerfið er svona. Ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnarliða koma hingað upp í ræðustól og skýra það út fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum þeir hafa kerfið svona. Hvers vegna í ósköpunum breyta þeir þessu ekki? Hvers vegna í ósköpunum sjá þeir ekki til þess í eitt skipti fyrir öll að hjálpa þessu fólki, a.m.k. upp úr þessu?

Það er það sem við erum að reyna hér. Við erum bara að biðja um að fólkinu sem stendur allra verst verði hjálpað. Þetta er ekki stór hópur. Við erum á vegferð sem er svolítið skrýtin að því leyti til að maður hefði haldið og hefði trúað því að það væri vilji og það væri innbyggt í kerfið að við værum tilbúin til þess að sjá til þess að allir gætu lifað — hvað á ég að segja, ekki í neinum lúxus í sjálfu sér heldur að það væri alveg á hreinu að viðkomandi hefði nóg fyrir húsnæði, hefði nóg fyrir mat og öllum nauðsynlegum lyfjum og læknisþjónustu og það væri búið að reikna það út. Þess vegna lagði Flokkur fólksins fram frumvarp um 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Ég hef bent á það hérna að við vitum að það eru ákveðnir hópar sem fá 13. mánuðinn greiddan og það er auðvitað stórfurðulegt að þessi hópur skuli ekki fá 13. mánuðinn greiddan. En það dugir ekki til. Fyrir þá verst settu, þó að þeir fengju 60.300 kr. á mánuði það sem eftir væri, dygði það ekki heldur til. Við getum tekið dæmi af konunni sem flosnaði upp úr leiguhúsnæðinu hjá Ölmu leigufélagi. Hana vantaði 10.000 kr. upp á að geta staðið undir leigunni. Ef hún hefði fengið þessar 60.300 kr. þá hefði hún getað borgað leiguna, bara einn mánuðinn, og átt 50.000 kr. eftir. En ekki áfram. Ef hún hefði haft þetta allt árið þá hefði hún jú getað reynt að tóra á ekki 65.000 kr. á mánuði heldur 53.000 kr. á mánuði. Ég veit ekki hvernig fólk á að fara að því vegna þess að ef við deilum þessu niður þá eru þetta rétt rúmlega 10.000 kr. á viku og við vitum öll hér að það dugar engan veginn til.

Þess vegna er þetta svolítið sorglegt og þess vegna er ég hér í þessum ræðustól og þess vegna erum við að reyna að berjast fyrir þetta fólk. Í öllu þessu dæmi, eins og við höfum bent á, fær Kvikmyndasjóður 150 milljónir og svo erum við með dæmi þar sem ríkið er að kaupa fyrir 6 milljarða aðstöðu fyrir ráðuneyti á dýrasta stað landsins. 10% af því eru 600 milljónir, 5% af því er meira en við erum að biðja um og myndi duga vel til að gefa þessum hópi 60.300 kr. Setjum þetta í samhengi við það sem er búið að setja í ýmis gæluverkefni, frjálsa fjölmiðla t.d. sem fá tvöfalt, þrefalt meira en þetta, Ríkisútvarpið fær alltaf allt sitt, allar sínar hækkanir, það eru 7 milljarðar. 10% af því eru 700 milljónir. Kannski væri hægt að skera niður þar um 5% og ná í þessa peninga. Ég efast um að það myndi skaða þá stofnun stórlega. Við hefðum getað hækkað bankaskattinn. Þar hefði sko aldeilis verið hægt að ná inn peningum, þar hefðum við náð inn peningum til að duga fyrir 60.300 kr. allt árið um kring fyrir allan þennan hóp. Og það hefði meira að segja verið afgangur. Þannig að lausnirnar eru til staðar en ríkisstjórnin vill ekki þær lausnir. Ríkisstjórnin vill hafa þetta fólk í fátækt og ekki fátækt heldur í sárri fátækt.