Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[16:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil taka fram að ég var ekki að vitna í nein orð, ég var bara að lesa upp úr grein forsætisráðherra um að þetta væru 5 milljarðar en að óbreyttu kerfi. Það kemur svona í lokin. Þetta er smá blekkingarleikur greinilega, að fá fólk til að halda að það sé verið að hækka og þau séu með hærri bætur en aðrir stjórnarandstöðuflokkar. Það sem ríkisstjórnin ætlar að gera eða heldur að hún sé að gera er að einfalda barnabótakerfið og efla stuðning við barnafjölskyldur. Þetta kom fram á fundi með fjármálaráðuneytinu í morgun. Fjölskyldum sem njóta stuðnings verður fjölgað um 2.900. Við fengum ekki nægileg svör hvað þetta varðar. Er verið að fjölga? Ég vil meina að það sé verið að koma í veg fyrir að þessar 2.900 fjölskyldur detti út úr kerfinu. Það er ekki verið að fjölga heldur verið að halda fjölskyldum inni í kerfi sem þær hefðu annars dottið út úr. Þessi efling, að dregið verði úr skerðingum og jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir — það eru engar upplýsingar um fjárhæðina á því þegar á að draga úr skerðingunum. (Forseti hringir.) Við fengum hins vegar verðmiða á það þegar verið var að draga úr skerðingum á aldraða fyrir einu ári síðan. Það var milljarður. Þessi framsetning hérna (Forseti hringir.) er engan veginn hæf. Það er verið að hækka skerðingarhlutfallið á foreldra með eitt barn (Forseti hringir.) úr 4% í 5%.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir aftur á afar takmarkaðan ræðutíma.)