Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:25]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég veit ekki hvort ég treysti mér til að hæla hv. þingmanni en þetta er mjög nærri lagi að mínu mati. Þetta er spurning um hvaðan hugmyndirnar koma. Alveg það sama með frítekjumarkið, 200.000 kr. fyrir öryrkja, sem var hafnað í fyrra. Ég man hins vegar eftir rökunum. Þau voru þau að það átti að bíða heildarendurskoðunar almannatryggingakerfisins sem er enn í gangi. Samt er tillagan komin núna. Heildarendurskoðunin er ekki búin en samt koma þau fram með tillöguna. Rökin í fyrra gengu ekki upp þar sem heildarendurskoðun er ekki lokið. Það sem ég á líka mjög erfitt með að skilja er að þetta er sami hópurinn. Segjum að 17. gr. almannatrygginga segi það að öryrki verði ellilífeyrisþegi við 68 ára aldur eða 69 ára aldur. Þá lækkar hann. Fyrir mér er þetta bara sami hópurinn, algerlega sá sami, sérstaklega varðandi þessa 1.032 einstaklinga sem voru á örorkubótum en fara á ellilífeyri á árinu. Þetta er nákvæmlega sami hópurinn. Við finnum það að við erum sömu einstaklingarnir þó að við verðum einu ári eldri. Þetta fólk er enn þá öryrkjar, það er bara á ellilífeyrisbótum, þau verða ellilífeyrisþegar. Það er eini munurinn, það er ekkert sem breytist í lífi þeirra. En heildarútgjöldin við það að láta þessa 2.080 einstaklinga, ellilífeyrisþega, fá eingreiðslu er 125 millj. kr. Það eru heildarútgjöldin. Það er ekki meira. Og ef við myndum bara taka þessa 1.032 einstaklinga erum við sennilega að tala um tæplega 70 milljónir eða 62,5 milljónir. Þetta er meira að segja langt innan skekkjumarka. Ríkið fer ekki á hausinn út af þessari fjárhæð, halli ríkissjóðs eykst ekki. Þetta er eiginlega innan skekkjumarka á einföldum útgjaldalið, en ég sit í fjárlaganefnd. Ég vil ekki kalla þetta mannvonsku (Forseti hringir.) en mér finnst það bara ömurlegt að við séum að sleppa hópi sem er enn fátækari en hópurinn sem fær eingreiðsluna.