Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[17:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að þakka öllum hv. þingmönnum fyrir dugnað sinn og umræðu um þetta mikilvæga mál og benda á að enn er von. Við getum alveg beygt af hvað það varðar ef ríkisstjórnin vill vera svo góð að taka utan um þessa ríflega 2.000 einstaklinga núna sem sannarlega samkvæmt svari Tryggingastofnunar eru í sárri neyð. Samkvæmt 48. gr. almannatryggingalaga fellur greiðsla til ellilífeyrisþega á hjúkrunarheimili niður. Það er ekki neitt snúið að sjá það út, enda er svarið skýrt frá Tryggingastofnun að af þessum 2.080 einstaklingum sem búa við bágust kjörin og eru langt langt undir fátæktarmörkum og langt langt undir lágmarkslaunum er helmingurinn öryrkjar sem hefur í rauninni missti hluta af framfærslu sinni sem öryrkjar við það að verða 67 ára. Hinn hlutinn er einhleypir eða einstæðingar, ekkjur og ekklar. Það skal alveg sagt hér að ef um hjón er að ræða þá hefur ríkið sannarlega skert þau hvort með öðru þannig að þau fái ekki fullar greiðslur. Þetta er einungis það sem við erum að óska eftir hjá Flokki fólksins. Breytingartillagan okkar var tekin af ríkisstjórnarflokkunum, af hv. fjárlaganefnd, breytingartillagan okkar um 60.000 kr. eingreiðsluna, og ég var beðin um á þeim tíma að draga hana til baka svo að þyrfti ekki að breyta henni í 60.300 sem síðar var gert því að ég vildi ekki draga hana til baka. Upphaflega átti að greiða ríflega 27.000 krónur, það var tillaga ríkisstjórnarflokkanna, en þeir sáu náttúrlega að þeir greiddu rúmlega 53.000 í fyrra þannig að miðað við verðbólgu, vaxtaokur, brjálæðislega háa matarkörfu og hækkandi leiguverð og allt hækkandi upp úr öllum rjáfrum þá eru það einfaldlega þeir einstaklingar sem bágast eiga í samfélaginu sem við þurfum að hjálpa.

Ég er ekki enn þá orðin vonlaus um það, virðulegi forseti, að eitthvað verði gert jákvætt. Við munum mæla fyrir breytingartillögu þar sem við verðum búin að lækka, draga úr kröfunum þrátt fyrir að þeir 4.000 einstaklingar sem við munum taka út af breytingartillögunni okkar eigi líka virkilega um sárt að binda. En það verður að hafa það. Ég get ekki annað en sagt bara fyrirgefið þið að hlutirnir skuli ekki ganga betur fyrir sig, fyrirgefið þið að þið að skulið vera skilin eftir í svona mikilli neyð og bara fyrirgefið ef við getum ekki komið því í gegn fyrir jólin að þið getið örlítið betur um frjálst höfuð strokið. Það vantar ekki viljann hér, hvorki í mig né okkur í Flokki fólksins né í stjórnarandstöðuna. Ég vil þakka sérstaklega Pírötum fyrir hvað þeir eru að sýna sitt fallega hjarta hér og berjast með okkur. Það er í rauninni ekkert annað hægt að gera.

Við höfum átt þessar góðu ræður og samtal um þetta mikilvæga mál þótt við höfum aðallega verið að kalla eftir því að þessari mismunun verði aflétt. Við höldum áfram. Það eru fleiri ágætismál sem við eigum eftir að þurfa að ræða hér og síðan kemur fjáraukinn góði. Þangað til segi ég bara, eins og minn góði þingflokksbróðir, hv. þm. Tómas A. Tómasson: Áfram veginn. Við getum lítið annað gert en að halda ótrauð áfram að vinna fyrir fólkið okkar. Það munum við gera af heilum hug. Til þess vorum við jú kosinn á þing.