Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[17:51]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar (frítekjumörk og skerðingarhlutfall). Ég er með breytingartillögu við frumvarpið, mjög einfalda í sjálfu sér, þ.e. að í stað 2,4 millj. kr. í frítekjumark á ári standi 3 millj. kr. Ég er einnig með svohljóðandi breytingu:

„Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 9. gr. skal lífeyrisþegi hafa 3.000.000 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri.“

Þarna er ég að reyna að taka á því að ekki sé verið að útiloka 7.000-8.000 einstaklinga í örorkukerfinu sem eru með framfærsluuppbót.

Framfærsluuppbótin var á sínum tíma að mörgu leyti góð hugsun, þegar hún var sett á, en skelfileg í framkvæmd þegar hún var sett inn á þann hátt að hún skerðir greiðslur; skerti á sínum tíma krónu á móti krónu en núna 65 aura á móti krónu. Á mannamáli þýðir það að einstaklingur með fulla framfærsluuppbót sem ætlar að reyna að vinna — fyrstu launin, rúmlega 100.000 kr., skila honum ekki nokkrum sköpuðum hlut. Það segir sig sjálft að þú þarft að hafa töluvert miklar tekjur til þess að þær fari að skila sér eitthvað, sem er ekki útlit fyrir að viðkomandi öryrki fái vegna þess að hann ræður kannski ekki við nema hlutastarf og er þar af leiðandi að fá lágar tekjur. Þetta er þá enginn hvati fyrir viðkomandi til að reyna einu sinni að fara og vinna.

Ég skil ekki ríkisstjórnina að því leyti til að hún er að tala um að endurskoða almannatryggingakerfið og að reyna að sjá til þess að þeir sem geta unnið fari út á vinnumarkaðinn, að tala um að breyta kerfinu þannig að þar sé hvati. En það er gjörsamlega útilokað í þessu samhengi að þarna sé verið að búa til einhvern hvata. Það er bara enginn hvati í því nema fyrir ákveðna einstaklinga og þetta er svo lítið sem verið er að fjalla um. Ef við tökum bara einfalt dæmi þá munar þetta því, hvort viðkomandi er með framfærsluuppbótina eða ekki, að rétt innan við 20% myndu skila sér af fyrstu 100.000 kr., en ef þú ert fyrir utan þá skilar það sér 33–34%. Það segir sig sjálft að við öll þarna úti og allir sem eru að vinna — ef við vitum að af hverjum 1.000 kalli sem við fáum í laun skili sér 200 kr. eða 300 kr., þó að það væru 340 kr. eða 350 kr., þá væri það ekki hvetjandi. Þeir sem eru í besta hlutfallinu gætu þá verið að fá einhverjar 65.000–70.000 kr. fyrir 200.000 kr. sem verið er að tala um þarna. Þá á viðkomandi eftir að koma sér í og úr vinnu og allt sem því fylgir. En ef þeir væru bara eins og venjulegt fólk, borguðu bara sinn skatt og sitt útsvar og sinn tekjuskatt af þessari upphæð væri það að skila þeim meira en helmingi meira. Þá erum við bara komin að jafnrétti, að allir séu jafnir fyrir lögum, að allir séu að fá það sama, að ekki sé verið að mismuna fólki bara af því að það er inni í þessu kerfi.

Það sem mér finnst einna fáránlegast í þessu er þegar ríkisstjórnin setur hvað eftir annað upp þann fáránlega leik að þetta kosti milljarða, að það kosti milljarða að leyfa fólki að vinna sem borgar þá tekjuskatt og útsvar. Þetta getur ekki kostað, það er bara gjörsamlega útilokað. Það eina sem ríkið er að hugsa um þarna er að það telur sig vera að spara. Sparnaðurinn í þessu tilfelli er sá að ríkisstjórnin þarf ekki að borga eins mikil útgjöld en síðan tekur hún aldrei tillit til gróðans sem kæmi á móti. Eins og ég benti á í fyrra málinu þá segir Tryggingastofnun: Jú, 104.000 kr. fá ellilífeyrisþegar í orlofs- og jólauppbót. Það stendur hvergi að þetta og þetta skerði þá jólauppbót. Ef þú færð einhverjar tekjur annars staðar frá þá skerðir það, ef þú ert með skattskyldar tekjur, þessa blessuðu jóla- og orlofsuppbót. Þetta er, verð ég bara að segja, með ólíkindum óhugnanleg og ósanngjörn uppsetning, að þegar verið er að tala við eldra fólk, öryrkja og veikt fólk sé reynt að setja hlutina þannig upp að það líti út fyrir að þetta sé hið besta mál en niðurstaðan er sú að þetta er sko langt frá því að vera gott mál.

Ég styð þetta mál, annað er ekki hægt, það bætir hag ákveðinna hópa sem eru að reyna að vinna. Ég hef hitt fólk sem vill vinna í þessu kerfi og fór af stað, talaði við Tryggingastofnun og spurði hvaða áhrif það hefði ef það myndi vinna sér inn ákveðnar tekjur á mánuði. Það fékk þau svör að viðkomandi ætti þá 109.600 kr. frítekjumark og þetta myndi skila honum einhverri ákveðinni upphæð. Svo fór viðkomandi og vann og fékk sínar tekjur, stórbætti hag sinn, notaði tekjurnar jafnvel til að kaupa mat og lyf og annað. En þá rann 1. ágúst upp, skerðingar- og skelfingardagurinn mikli, og þá komu bakreikningarnir. Ég sá bakreikninga hjá fólki þar sem allt var tekið af því, bara gjörsamlega. Það þurfti að gjöra svo vel að endurgreiða allt og þá sat það uppi með kostnaðinn, það gat sýnt fram á að kostnaður við að koma sér í og úr vinnu var jafnvel kominn í mínus. Haldið þið virkilega að þessir einstaklingar reyni aftur að bjarga sér með vinnu? Aldrei. Það treystir ekki kerfinu, það er búið að sjá til þess. Ef við værum virkilega sanngjörn, ef ríkisstjórnin vildi hjálpa þessu fólki — nú segist hún vera að endurskoða kerfið, ætli sér að taka næstu tvö til þrjú árin í það — ef hún vildi virkilega sýna að hún tryði því að það væri fólk þarna úti sem vildi reyna að fara að vinna og gæti það myndi hún bara segja: Farið þið bara að vinna. Þið þurfið ekkert að óttast skerðingar næstu tvö árin. Finnið ykkur vinnu og vinnið. En þá er sagt: Þetta kostar svo rosalega mikið, það er ekki hægt að leyfa fólki að gera þetta, þetta er þvílíkur kostnaður, sem er algjört bull. Það er verið að borga þessu fólki, það þarf þá að borga fólkinu, það er þá ekki að vinna. En ef það fer að vinna þá er það að skila til baka útsvari og tekjuskatti. Hvernig í ósköpunum getur það verið kostnaður ef þú skilar útsvari til sveitarfélaga og tekjuskatti til ríkisins? Ég bara spyr og vildi gjarnan fá einhvern stjórnarliða upp til að útskýra það fyrir mér, hvernig í ósköpunum það getur verið kostnaður ef þú skilar útsvari til sveitarfélaganna og tekjuskatti í ríkissjóð. Að segja að það sé alveg rosalega dýrt, það getur ekki verið, það er gjörsamlega útilokað.

Þessi blekkingaleikur verður að hætta og ríkisstjórnin verður að fara að spila heiðarlega. Ef hún gerir það ekki þá er svokölluð endurskoðun almannatrygginga — en við verðum að passa okkur. Það er ekki verið að endurskoða almannatryggingar. Það er verið að endurskoða öryrkjahlutfall og endurhæfingarhlutfall. Ríkisstjórnin segist vera búin að endurskoða og ganga frá ellilífeyrisþegunum. Við vitum hvernig það fór. Við erum með stóran hóp, og erum búin að benda á það, sem er í fátækt, jafnvel í sárafátækt, og við vitum líka hvernig farið var með þá verst settu, þá sem eru með búsetuskerðingarnar. Þeir voru settir í þá aðstöðu að vera með 10% minna, króna á móti krónu var sett á það aftur. Hvernig í ósköpunum á ég að trúa þessu núna — ég sat í tveimur nefndum um endurskoðun almannatrygginga og veit hvernig það endaði — þegar ríkisstjórnin sjálf er að pukra með það í sínu horni að endurskoða þetta á sinn veg? Ég er hér með tillögu sem kostar ekki krónu heldur er það hagur ríkisstjórnarinnar að fá sem flesta, með frítekjumörkunum eins og sagt er, út til þess að vinna sem geta það og vilja. Samt eru menn ekki tilbúnir að reyna að hliðra til fyrir þúsundum öryrkja sem væru kannski tilbúnir til að reyna.

Eins og ég segi: Ef öryrki sér á lífeyrislaunauppgjöri sínu frá TR að hann sé með framfærsluuppbótina þá þarf hann að hugsa sig tvisvar um áður en hann fer af stað. Hún skerðist mest en hann verður að átta sig á því að heimilisuppbótin skerðist líka, aldurstengda uppbótin skerðist líka. Ríkisstjórnin er að vísu að lækka skerðingarhlutfallið úr 11 í 9 og það er gert til þess að ekki verði fall á krónu þannig að viðkomandi geti lent í því, og við höfum séð þær fáránlegu aðstæður koma upp, að 1 kr. getur þurrkað allt út úr kerfinu. Það er 1 kr. yfir og allir flokkar hjá TR þurrkast út.

Það sem ég hef sýnt hér fram á er hversu flókið þetta kerfi er, hversu arfavitlaust það er. Við eigum ekkert að vera að endurskoða það. Við eigum að henda því. Við eigum að byrja að byggja gjörsamlega nýtt kerfi, gagnsætt kerfi, kerfi mannúðar. Þegar almannatryggingakerfið var upphaflega byggt upp átti það að vera kerfi fyrir fólk, til að grípa fólkið, þetta átti að vera kerfi til að hjálpa. Þetta var góð hugsun, enda var það þannig. Árið 1988 var ellilífeyrir skattlaus og meira að segja til afgangur af persónuafslætti upp í aðrar tekjur, lífeyristekjur eða eitthvað. Í dag eru þeir lægstu í þessu kerfi að borga 35.000–40.000 kr. á mánuði í skatt sem sýnir hversu arfavitlaust kerfið er orðið. Þetta er bútasaumað kerfi, skerðingarkerfi sem enginn getur varið sig á, refsikerfi vegna þess að ef þú færð tekjur einhvers staðar frá þá er þér refsað. Það sem er líka ljótt í þessu kerfi er að öryrkjar sem fá einhverra hluta vegna að fara að vinna eða geta sparað sér einhverja aura og leggja það inn á bók, ætla sér að safna, þeir fá vaxtagreiðslur á bókina og þá kemur fjármagnstekjuskattur á það. Allt í lagi með það, það fá allir fjármagnstekjuskatt. En mönnum tekst einhvern veginn að refsa þessum hópi aukalega, þeim tekst að setja 65% skerðingu ofan á fjármagnstekjuskattinn. Í mörgum tilfellum eru fjármagnstekjurnar sem þessi hópur fær í mínus og þeir eru fyrst að skatta mínusinn og síðan hugsa þeir: Það er ekki nóg að refsa þessu liði fyrir það og skatta tapið þeirra. Skerðum það um 65% í viðbót, sköttum það og skerðum það um 65% í viðbót. Ég spyr mig: Hver fann upp þetta kerfi og hvers vegna í ósköpunum er því viðhaldið árum saman? Það væri gaman að fá svar við því.