Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hv. þingmaður hefur reglulega komið inn á það í ræðum um tengd málefni, og ég er sammála þingmanninum hvað það varðar, að þegar lagt er mat á kostnað við frumvarp sem þetta sé fyrst og fremst horft til útgjaldahliðarinnar fyrir ríkissjóð en ekki til tekjuhliðarinnar. Þetta er auðvitað alveg fáránlegt og stenst enga skynsemisskoðun í raunheimum. Þetta hefur í mínum huga verið sérstakt tilefni til að taka til endurskoðunar lög um opinber fjármál. Það blasir við að tekjuhlutinn af aðgerð sem þessari er svo augljós. Það bara blasir við að ríkið hefur tekjur af aukinni virkni þegna landsins, hvort sem það er eins og er í þessu tilviki, þegar um örorkulífeyrisþega að ræða, eða ef um ellilífeyrisþega væri að ræða, ef við horfum á hinn arminn af þessum bótaflokkum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað eitthvað mat á áhrifum frumvarpsins eins og það liggur fyrir. Mér þykir það dálítið sérstakt, og kem inn á það í ræðu minni hér á eftir, að það er ekki í neinu vikið að heildaráhrifum frumvarpsins á afkomu ríkissjóðs. Það sætir furðu í ljósi þess af hve mikilli hörku sambærilegum málum hefur verið mætt á fyrri stigum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skoðað þetta tiltekna atriði, þ.e. hver kostnaðurinn af þessu máli er, annars vegar með tilliti til laga um opinber fjármál og hins vegar raunkostnaðurinn sem ég tel að við séum sammála um að sé allur annar en lög um opinber fjármál leiða út.