Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:31]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir andsvarið. Til að svara spurningunni eins beint og ég get þá er svarið við henni: Jú, við eigum og ég held að við verðum bara í ljósi þess með hvaða hætti þessi mál hafa þróast, sérstaklega á undanförnum árum, að fara að tileinka okkur allt aðra nálgun heldur en við höfum haft. Mér finnst raunar algjörlega frábært að heyra af því sem hv. þingmaður nefnir hér varðandi þá tilraun sem gerð var í Svíþjóð. Það að rétt um þriðjungur skili sér ekki til baka inn á kerfið kemur mér svo sem ekki mjög á óvart miðað við þá reynslu sem ég hafði af fyrri fyrirtækjarekstri þar sem einstaklingar sem höfðu kannski ekki fótað sig nógu vel í lífinu komu stundum til starfa. Þetta gjörbreytti lífi þeirra. Þó að ég sé dálítið að hugsa upphátt núna þá kemur það mér í raun ekki á óvart að þriðjungur nái að fóta sig það vel, eins og hv. þingmaður vísar til í verkefninu í Svíþjóð, að viðkomandi verði bara fullgildur aðili á vinnumarkaði í framhaldi af því. Ég held að hluti af vandamálinu hérna sé að stjórnvöldum eru afskaplega mislagðar hendur að átta sig á samhengi hlutanna og afleiddum áhrifum ákvarðana. Við sjáum það bara í endalausum málum hér í þinginu að það er horft fram hjá afleiddum áhrifum frumvarpa. Það er horft með rörsýn á akkúrat það sem er verið að leysa, breyta eða laga en öll afleiddu áhrifin, það er litið fram hjá þeim. Það væri til mikils að vinna ef okkur tækist að rífa okkur út úr því boxinu.