Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

almannatryggingar.

534. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. minni hluta  (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er nefnilega einmitt punkturinn í þessu máli. Við erum að borga öllum í ellilífeyriskerfinu, við erum að borga öllum í endurhæfingarlífeyriskerfinu og í örorkukerfinu og við borgum mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Það hljóta allir að sjá hversu fáránlegt það er að ef viðkomandi fer að vinna og fær tekjur og borgar útsvar og tekjuskatt, hvernig í ósköpunum það getur orðið að kostnaði hjá ríkinu. Þessi milljarður sem ég sé hérna, ég veit ekki hvernig í ósköpunum þau ætla að finna hann og hvernig hann mun koma seinna meir fram í bókhaldi ríkisins er mér gjörsamlega óskiljanlegt vegna þess að hann verður aldrei til. Eins og hefur komið fram er einfaldast, þægilegast, eins og ég hef alltaf sagt, að henda þessu kerfi. Gerum þetta bara einfalt og segjum við fólk: Þið sem getið unnið, farið út, finnið vinnu og vinnið. Þá var mér einhvern tímann bent á: Svo vinna tveir saman, annar er úr kerfinu og hinn ekki. Þá segi ég: Jafnið það bara, finnið meðallaun, byrjið á að skerða þannig að viðkomandi öryrki fari aldrei yfir meðallaun viðkomandi stéttar sem hann vinnur innan. Þá hallar ekki á einn eða neinn. Þá er þetta nokkurn veginn jafnvægi og allir græða. Ríkið tapar þá ekki neinu, það stórgræðir, sveitarfélögin stórgræða og öryrkinn, ellilífeyrisþeginn getur bara unnið þegar hann vill. Við erum að flytja inn fullt af fólki hérna til að vinna. Af hverju leyfum við ekki þessu fólki að vinna? Finnið ykkur vinnu, farið að vinna, borgið skatta, borgið útsvar, allir ánægðir.