Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:06]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir andsvarið. Ég verð bara að segja alveg eins og er: Þeir fara ekkert eftir því. Við sjáum það út um allt, þetta kerfi. Það verður ekkert gert fyrr en við getum dregið þá fyrir dóm hér heima. Það er það sem lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna gerir og líka að taka inn viðaukann. Þá erum við búin að tryggja það. Þess vegna vilja þeir ekki ganga í að gera þetta. Þeir eru búnir að hafa tvö ár til þess að fara í þetta. Þeir eru alltaf að segja að þetta sé svo flókið og erfitt og jú, það getur verið flókið og erfitt, þá gæti það kannski tekið sex mánuði eða ár en ég óttast að þetta verði áfram svo flókið og erfitt að eftir tvö ár þá stöndum við enn hérna og segjum: Þetta er svo flókið og erfitt, við þurfum að fá lengri tíma. Ég var einmitt að hugsa: Hvers vegna setja þeir inn þessi tvö ár núna? Ég held að það sé bara skýrt merki um að þeir ætli sér ekki að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár. Þá gæti ríkisstjórnin kannski tekið sig til og lofað að lögfesta hann ef þau yrðu kosin aftur. Það kæmi mér ekkert á óvart. Þá gætu þau líka lofað að taka 65 aura á móti krónu og krónu á móti krónu í búsetuskerðingunum. Ríkisstjórnin óttast þetta. Þeir vita hvernig þeir koma fram við fatlað fólk og þeir óttast að um leið og þeir lögfesta samninginn þá muni fatlað fólk leita réttar síns. Þess vegna munu þeir draga lappirnar með að lögfesta samninginn meðan þeir eru að brjóta á fólkinu svo það hafi engin vopn í höndunum til að leita réttar síns.