Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[20:35]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Ég er sammála því að það má alveg skoða þetta. Ég hef heyrt það einhvers staðar í umræðunni að það hafi alla vega verið lagt til að stærstu samningarnir féllu beint á ríkið. En þessi dómur er náttúrlega hreinn og beinn að því leyti að það má ekkert vera að tefja þetta þrátt fyrir að ríkið hafi ekki fundið fjármagn hjá sér til að gera það sem það er búið að segja í lögum að það ætli að gera. Það virðist vera orðin ákveðin lenska hjá ríkinu að vekja með fólki vonir, hvort sem það er fatlað fólk að fá NPA-þjónustu eða aðrir. Það er bara sagt: Já, já, við ætlum að vera komin með 172 samninga árið 2022. Og svo: Æ, nei, heyrðu, þeir eru bara 91. Þetta er svipað og með niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu, það er voða fallegt að segjast ætla að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en finna svo aldrei neinn pening í það. Og jafnvel þegar peningurinn er kominn er tryggt að það séu ekki gerðir neinir samningar við sálfræðinga þannig að ekki þurfi að eyða þessum peningum í það og hægt sé að nota þá í eitthvað annað innan kerfisins. Þetta er eitthvað nýtt hjá ríkisstjórninni sem ég held að við þurfum að kryfja til mergjar og stoppa, að það sé hægt að hegða sér svona.