Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Þetta er mjög áhugaverð pæling um orðin „allt að“. Í b-liðnum í frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Á árinu 2023 vegna allt að 145 samninga.

Á árinu 2024 vegna allt að 172 samninga.“

Breytingartillögurnar eru mjög áhugaverðar. Ef við byrjum bara á 1. minni hluta þá leggur hann til að orðin „allt að“ í báðum efnismálsliðum b-liðar 1. gr. falli brott og að við báða málsliði bætist „séu umsóknir ekki færri“, þ.e. að það verði bara á árinu 2023 vegna 145 samninga séu umsóknir ekki færri. Í breytingartillögu 2. minni hluta er lagt til að orðin „allt að“ falli út. Í breytingartillögu 3. minni hluta er lagt til að í stað orðanna „allt að“ komi „að minnsta kosti“ og að við báða málsliði bætist „að því gefnu að nægjanlega margar umsóknir berist.“ Það hefði verið gaman að geta a.m.k. komið sér saman um þetta, þetta hljómar vel allt saman.

Mér finnst þetta svona markmið, raunverulega, þetta „allt að 145“, og ef þeir ná bara 100 þá geta þeir sagt: Já, við náðum ekki markmiðinu en svona er lífið. Í staðinn fyrir að ríkið tryggi fyrir fram að það fjármagni 25% af 145 samningum. Það finnst mér vera mjög mikilvægt. Þetta „allt að“ er klárlega — ríkið sleppur nú svolítið vel, við getum orðað það þannig. Breytingartillögurnar eru til að koma í veg fyrir það, allar breytingartillögur minni hlutans. Samband íslenskra sveitarfélaga segir bara 30% í umsögn sinni. Ég hef heyrt það líka að ríkið ætti að taka við stærstu samningum Mér finnst það vera mjög lögmætt markmið og ríkið á klárlega að segja: Heyrðu, við tökum 30%, ekkert mál. Ríkið á líka að segja: Heyrðu, já, við ætlum að fjármagna á næsta ári 145, ekki „allt að“. Það er mín skoðun. Raunverulega ætti Alþingi að krefjast þess að það yrði gert.