Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

532. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Lenya Rún Taha Karim) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir góða ræðu og einstaklega fallegan söng. Ég er gráti næst yfir því að hún hafi þurft að hætta. (Gripið fram í.) Já, en nóttin er ung, vissulega. Hv. þm. Inga Sæland stiklaði á mörgu stóru í ræðunni sinni hér í kvöld, í þessari 20 mínútna ræðu. Hún fór m.a. út í stöðu fátæks fólks hér á Íslandi. En tölum bara um daginn í dag, virðulegi forseti. Í dag hafa komið fréttir um að heimilislaust fólk neyðist til að sofa úti í nístingskulda. Hv. þm. Inga Sæland nefndi bygginguna sem er verið að byggja fyrir hv. þingmenn hér í götunni á móti okkur og kostnaðinn sem fer í það. Ég er því bara að pæla og velta fyrir mér hvort ekki væri meiri sparnaður fólginn í því fyrir ríkissjóð að eyða þessum peningi frekar í það að byggja fleiri gistiskýli fyrir heimilislaust fólk. Ég kem vissulega að NPA-samningnum í síðara andsvari hjá mér, en hv. þingmaður stiklaði á svo mörgu í ræðu sinni að ég bara veit ekki hvar ég á að byrja. Hv. þingmaður er greinilega mjög vel að sér í þessum málefnum. Væri það ekki bara spurning um forgangsröðun stjórnvalda og þá sérstaklega Alþingis að við myndum frekar fara í að byggja upp úrræði fyrir heimilislaust fólk áður en við bætum við einhverri viðbyggingu fyrir þingmenn. Við erum nú þegar með ótrúlega fallegt hús, vissulega er loftræstikerfið bilað akkúrat núna og það er allt í góðu, við tökum það bara alveg í mál, virðulegi forseti. En þetta er bara spurning um forgangsröðun.