Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Varðandi upplýsingaöflunina þá er það ákveðið vandamál að oft eru upplýsingarnar ekki framreiddar á réttan hátt eins og t.d. ummæli forsætisráðherra í gær um að meiri hlutinn ætlaði að bjóða betur en gert er í tillögu Samfylkingarinnar. Þau drógu tillögur sínar til baka og svo sjáum við í morgun að það eru 600 milljónir komnar aukalega. Svo segir í grein í dag að það sé 5 milljarða kostnaðarauki í óbreyttu kerfi og svo sjáum við líka að það eru 2 milljarðar að koma á næstu tveimur árum, 600 milljónir í ár og svo 1.400 milljónir á næsta ári vegna launakostnaðar varðandi NPA-samningana. Það er stöðugt stríð að fá réttar upplýsingar, svo maður skilji þær og þetta sé einfalt. Og bara orðalagið, „jargonið“, það eru alveg fræði út af fyrir sig. Maður kallar ekki allt ömmu sína, búinn að vera að lesa og pæla í lagatexta undanfarin ár. Það á að hafa þetta eins einfalt og hægt er en það er ekki verið að gera það. NPA-samningarnir eru vanfjármagnaðir. Þetta er réttur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og íslenska ríkið á að borga 25% og við höfum ekki verið að standa okkur varðandi fjármögnunina og það vantar meiri peninga. Það eru 44 einstaklingar núna sem hafa ekki fengið NPA-samninga. Við þurfum bara að sjá til þess að peningarnir fáist. Það er verið að brjóta rétt á þessu fólki. Það féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra þar sem sagði að það skipti engu máli að það væri búið að skilyrða samninginn við fjármögnun ríkisins, það er meira að segja farið að gera það, var gert í þessu tilviki, og dómstóllinn sagði: Þið hafið enga lagastoð til að gera þetta, skiptir engu máli hvar peningurinn er. Íslenska ríkið, Alþingi Íslendinga, ber ábyrgð líka á fjármögnun sveitarfélaganna á endanum. Það erum við sem gefum þeim tekjustofna. Og varðandi þetta mál sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega þá er klárt mál að það er gat þarna, það þarf að fjármagna það. (Forseti hringir.) Við í minni hlutanum ráðum þessu ekki. Þetta er spurning sem ætti að spyrja meiri hlutann að. Ég tel að við eigum að fjármagna þetta.