Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 48. fundur,  13. des. 2022.

fjáraukalög 2022.

409. mál
[22:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Þetta er ákveðin grundvallarspurning og ég veit að flokksfélagi hv. þingmanns, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi flokks Pírata í fjárlaganefnd, er óþreytandi við að spyrja þessara spurninga. Málið er þetta: Í stjórnarskránni segir að ekkert gjald megi greiða úr hendi ríkissjóðs nema samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta er ekkert einsdæmi. Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar sem fjallað er um NPA-samningana í bráðabirgðaákvæði eins og við vorum að fjalla um áðan, eru vanfjármögnuð af því að fjárveitingavaldið setur ekki nægjanlega mikinn pening í þetta. Þetta er að gerast líka varðandi 69. gr. almannatryggingalaga, nákvæmlega sama vandamál. Í lögunum er tryggt að bætur almannatrygginga skuli fylgja launaþróun og ekki vera lægri en verðlagsþróun. Það er búið að brjóta þetta í mörg ár, meira en áratug, sem leiðir til kjaragliðnunar. Svo erum við líka með lög um Ríkisútvarpið en þar á að fara eftir lögunum, þar er mikilvægt að fara eftir lögunum. Nefskatturinn sem á að fara til RÚV hækkar samkvæmt verðbólgu og fólksfjölda í landinu og fjárveitingavaldið getur alveg sagt: Þið fáið ekki krónu af þessum nefskatt, það segir í stjórnarskránni. En þar þarf að fara eftir lögunum. Við vorum með breytingartillögu í Flokki fólksins um að þessar 290 milljónir færu til íslenskrar kvikmyndagerðar, til Kvikmyndasjóðs. Það var fellt að sjálfsögðu. Svona er þetta aftur og aftur. Öryrkjar og aldraðir eiga rétt á því samkvæmt stjórnarskrá að fá aðstoð, 69. gr. er til að tryggja þennan rétt, tryggja þessa aðstoð en samt er ekki farið eftir því. Svo er valið að fara eftir lögum um RÚV, það er risamál. Það er nákvæmlega það sama með lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. (Forseti hringir.) Þar er ekki nægileg fjármögnun. Þetta er bara spurning um forgangsröðun og ekkert annað. En svo hefur líka stór hluti af þessu ekkert (Forseti hringir.) með pólitík að gera. Þetta er bara spurning um fagleg vinnubrögð og sérstaklega í fjárlaganefnd, að fá réttar upplýsingar og fjalla um þær á faglegum forsendum. (Forseti hringir.) Það er ekki allt pólitík sem á sér stað hérna.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk. )