154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar höfum sýnt það með löggjöf og almenningsáliti að við lítum kynferðisbrot sérstaklega alvarlegum augum. Kynlífsmansal er alvarlegasta kynferðisbrot sem hægt er að fremja og því ætti viðhorf okkar valdhafa til þess að endurspegla vilja þjóðarinnar í þessum efnum. Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem lýsa því skýrt yfir að við berum lagalega ábyrgð gagnvart þolendum mansals þó að þeir hafi ekki orðið fyrir mansali á Íslandi. Svo berum við líka siðferðilegar skuldbindingar sem almennilegt fólk gagnvart þeim sem brotið hefur verið á með þessum hætti. Við vitum hversu alvarleg og langvarandi áhrif kynferðisbrot hafa á þolendur. Rannsókn Stígamóta frá árinu 2022 sýnir að vændi hefur alvarlegri afleiðingar og því er auðvelt að gera sér í hugarlund hversu enn alvarlegri afleiðingarnar eru á þolendur kynlífsmansals. Hluti af afmennskun og niðurbroti mansalsþolenda er að taka af þeim gild skilríki þannig að þau séu háð kvölurum sínum um ferðafrelsi. Fólk er þannig yfirleitt flutt milli landa á fölsuðum skilríkjum til að gera því erfiðara að leita sér aðstoðar. Að halda því gegn mansalsþolanda að viðkomandi hafi komið til landsins á fölsuðum skilríkjum er því sambærilegt við að halda því gegn viðkomandi að hafa orðið fyrir kynferðisbroti. Samkvæmt íslenskum lögum stendur þolendum mansals til boða að fá húsnæði, fjárhags- og lögfræðiaðstoð og í boði er dvalarleyfi bæði fyrir staðfesta þolendur mansals og, frá árinu 2019, einnig fyrir hugsanlega þolendur mansals. Það gefur því augaleið, virðulegi forseti, að það er vilji löggjafans ekki síður en almennings að þolendur kynlífsmansals njóti vafans og að lagatæknileg atriði ættu ekki að standa í vegi fyrir því að veita því fólki hæli á Íslandi.