154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf):

Virðulegi forseti. Framúrskarandi fyrirtæki er viðurkenning sem árlega er veitt þeim fyrirtækjum sem skara fram úr, hafa tekið til hjá sér, jafnvel ráðist í breytingar og betrumbætur. Þótt Alþingi sé ekki dæmigert fyrirtæki í þeim skilningi orðsins gildir hér sem annars staðar að halda vöku sinni og laga úrelta starfshætti. Okkur ber að gera Ísland að besta mögulega Íslandi, standa vörð um réttlæti og þau mannréttindi allra Íslendinga sem hér kjósa að búa, starfa og eldast síðan með reisn. Alþingi er rótgróin og stolt stofnun sem til þessa hefur ekki gert mikið af því að beina sjónum að eigin veikleikum, hvað þá að leita ráðgjafar eða aðstoðar. Ég vil því leggja til, herra forseti, að við efnum á komandi ári til eðlilegrar sjálfsskoðunar með aðstoð bestu sérfræðinga með það að markmiði sem hér hefur verið lýst og ráðast síðan í að innleiða nýjan sið þar sem þess gerist þörf, rétt eins og tugir fyrirtækja gera á ári hverju, meira að segja ríkisfyrirtæki. Hið háa Alþingi munu engu glata af reisn sinni og virðingu við slíka sjálfsskoðun og breytingastjórnun þar sem það á við.

Að þessu sögðu vil ég leggja til að við viðurkennum einnig að sitthvað mætti betur fara í því efnahagskerfi sem við höfum boðið þegnum okkar upp á áratugum saman, ólgusjónum ófyrirsjáanlega með öllum þeim tilraunum til inngripa og afskipta sem augljóslega hafa ekki virkað sem skyldi. Það veikir mjög tiltrú á bæði ríkisvaldinu og Seðlabankanum þegar svo dramatískar tilraunir til úrbóta sem raun ber vitni virka hreinlega ekki svo mánuðum og árum skiptir. Til þess er sífellt vitnað að vextir séu eina vopnið gegn verðbólgunni. Höfum það hugfast að sé gripið til vopna ber einnig að grípa til varna og hafa mannúð í fyrirrúmi. Sárabindin, verkjalyfin og plástrana skortir svo sárlega um þessar mundir og fyrirsjáanleg er enn meiri pína. Venjulegt fólk reiðir sig á okkur, herra forseti, og okkur ber að bregðast við af fullum þunga. Fólkinu okkar blæðir og þá mest viðkvæmustu hópunum.