154. löggjafarþing — 48. fundur,  12. des. 2023.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Greta Ósk Óskarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar um Fangelsismálastofnun og starfsemi hennar birtist okkur mynd af málaflokki sem hefur orðið út undan. Staðan nú er sú að kerfið virkar ekki. Undirfjármögnun og aðhaldskröfur ár eftir ár hafa orðið til þess að nú á Fangelsismálastofnun erfitt með að uppfylla hlutverk sitt og starfa samkvæmt lögum. Ýmislegt veldur því að gera þarf betrumbætur á þessu kerfi. Uppsöfnuð viðhaldsþörf er orðin mikil í fangelsum landsins. Talið er að upp á vanti heil 18 stöðugildi hjá Fangelsismálastofnun, bæta þarf menntun fangavarða, há veikindatíðni er hjá fangavörðum og undirmönnun er viðvarandi vandamál. Vinnuaðstaða fangavarða er slæm. Öryggismálum er ábótavant. Staða kvenfanga er ekki góð. Afplánunarrýmum hefur ekki fjölgað að ráði undanfarin ár. Afbrot hafa aukist, aðallega vegna fólksfjölgunar. Boðunarlistar eru langir. Dómum er að fjölga, dómar eru að þyngjast. Dæmdum fangelsisdögum hefur fjölgað en ekki fé og stöðugildum. Ýmsir vankantar eru á veitingu heilbrigðisþjónustu fyrir fanga. Dæmi eru um að Landspítalinn hafi neitað að taka við fólki í geðrofi. Reksturinn hefur gengið fyrir viðhaldi. Fangelsismálastofnun hefur neyðst til að skera niður í öllu nema algjörri grunnþjónustu, sem er að vista fanga. Húsakostur er úr sér genginn á Litla-Hrauni og ástandið er alvarlegt og heilsuspillandi. Stjórnendur Fangelsismálastofnunar eru ábyrgir fyrir viðhaldi og rekstri en uppi eru hugmyndir um að færa ábyrgð á viðhaldi til Ríkiseigna. Nýbygging Litla-Hrauns klárast 2028. Þangað til eru fangar og fangaverðir og annað starfsfólk í heilsuspillandi húsakosti. Mikilvægt er að huga strax að skaðaminnkun. Það er ekki verjandi að láta fólk sitja hér í efnamengun sem getur valdið óafturkræfum heilsuskaða. Ég vænti þess að það verði farið beint í skaðaminnkun og í að bæta húsakost strax.