132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fjárframlög til stjórnmálastarfsemi.

[15:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um hvað einstakir frambjóðendur flokka eyða í kosningabaráttu sína í sambandi við prófkjör. Hitt er svo annað mál að það er mjög mikilvægt að fram fari prófkjör hjá flokkunum í landinu og að öflug starfsemi sé í kringum þau.

Ég vísa hins vegar til þess að ég setti nýlega á laggirnar nefnd til að fara yfir þessi mál og þar eiga sæti fulltrúar allra flokka. Ég vænti þess að fulltrúi Frjálslynda flokksins hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri í því nefndarstarfi. Niðurstaða þeirrar nefndar er háð því að gott samkomulag takist milli stjórnmálaflokkanna um þetta mál. Ég veit ekki betur en að það starf gangi prýðilega og að fulltrúi Frjálslynda flokksins hafi unnið að málum í nefndinni af dugnaði og heilindum. Ég vænti þess að hv. þingmaður hafi þolinmæði til að gefa fulltrúum stjórnmálaflokkanna tækifæri til að vinna þetta mál til enda. Ég efast ekki um að hann hafi margar ágætar tillögur í málinu og það er ekkert vandamál, hv. þingmaður, að koma þeim þá á framfæri, hvort sem er við formann nefndarinnar eða þann fulltrúa sem þinn flokkur hefur skipað í hana.