132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Fsp. 4.

[15:29]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka fram að staða gengisins, hátt gengi krónunnar er ekki fyrst og fremst af völdum álversframkvæmda hér á landi, heldur fyrst og fremst af öðrum völdum, t.d. því að nú hafa verið seld skuldabréf í íslenskum krónum fyrir 170 milljarða á tiltölulega skömmum tíma. Það kemur einhvers staðar við. Það er hins vegar rétt að það eru miklar framkvæmdir á Austurlandi og mjög gleðilegt að sjá hvað Austurland er allt að lifna við. Ég er ákaflega stolt af því að eiga þátt í að svo er.

Hvað varðar aðra uppbyggingu áliðnaðarins er ekki ljóst hvernig þeim málum mun lykta en það er hins vegar mikill áhugi. Það fer ekki á milli mála. Auðvitað þarf ýmislegt að koma til svo að af því geti orðið. Það þarf t.d. að afla orku. Ég reikna með að það geti orðið ákveðin hindrun í einhverjum tilfellum í sambandi við óskir manna í sambandi við uppbyggingu áliðnaðarins. Þó svo að þarna hafi verið stigið ákveðið skref í sambandi við umhverfismatsskýrslu er ekki þar með sagt að ákvarðanir hafi verið teknar og að af þessu geti orðið. Þetta er bara hluti af því sem er eðlilegt þegar unnið er að uppbyggingu álvers, að þetta þarf að ganga í gegnum ákveðið ferli allt saman. Þetta er hluti af því. Þetta er ekki eitthvað sem mér er tilkynnt um sérstaklega, þetta er bara eitthvað sem ég les í blöðunum eins og aðrir. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er í ákveðnu ferli. Alcan hefur áhuga á að stækka, eins og hv. þingmaður veit, og síðan er verið að skoða í alvöru hvort orðið geti af uppbyggingu álvers á Norðurlandi.

Ég vil bara ítreka að ekki má allt vera í gangi í einu enda gæti aldrei komið til að svo yrði, sérstaklega vegna orkuþáttarins.