132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[17:52]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skammast mín ekkert fyrir það að lesa ræður hv. þingmanns, þær eru margar ágætar, sumar hverjar a.m.k. Í þessu tilviki er það þannig að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hefur margt til síns máls og ég vil sérstaklega draga það fram að það skiptir miklu máli að þetta frumvarp fái vandaða afgreiðslu í hv. menntamálanefnd og að farið verði yfir þau atriði sem hann kom inn á í ræðu sinni áðan.

Eitt af því að ég hlustaði gaumgæfilega eftir hjá hv. þingmanni, sem hann dró fram í ræðu sinni, er hversu mikill skoðanamunur er hjá stjórnarandstöðunni varðandi Ríkisútvarpið. Það er alveg ljóst að Vinstri grænir hafa mjög skýra stefnu sem birtist áðan í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar en þeir hafa ekki hvikað frá og munu greinilega ekki hvika frá þeirri stefnu sinni að Ríkisútvarpið verði áfram ríkisstofnun. Eftir nokkurt þóf er ljóst að Samfylkingin vill breyta rekstrarforminu í sjálfseignarstofnun. Og nú hefur hv. þm. fyrir hönd Frjálslynda flokksins undirstrikað að hann sé tilbúinn til að skoða breytingu á rekstrarforminu, hlutafélag allt eins og önnur rekstrarform. Það er því greinilega mikill ágreiningur meðal stjórnarandstöðunnar um þetta mál sem náttúrlega undirstrikar að það hefði verið ansi langt í land að ná samstöðu um þetta annars mikilvæga mál. Ég tel rétt að undirstrika það því það er eins og það komi ekki nægilega vel fram, að megintilgangur frumvarpsins er að gera Ríkisútvarpinu kleift á nýjum markaði eða þessum samkeppnismarkaði að standa undir því að þjóna almannahlutverkinu og efla menningarhlutverk enn betur en nú er. Það er stóri tilgangur frumvarpsins.