132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[18:15]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er öflugur þingmaður og hann kann að hafa þessa skoðun. Hitt er annað mál, og ég vék einmitt að því, að það eru stöku raddir í röðum sjálfstæðismanna sem héldu þessu á lofti. Það liggur hins vegar alveg fyrir, og nægir að vísa til greinargerðar með frumvarpinu, til einstakra greina þess og framsöguræðu hæstv. menntamálaráðherra, að það eru engin áform uppi um að selja Ríkisútvarpið. Það er enginn vilji til þess. Það er vilji til að halda því áfram í eigu ríkisins og þannig mun það verða. Síðan getur hv. þingmaður komið og gefið þessu þær einkunnir sem hann vill en þetta er meginkjarninn. Það er útgangspunkturinn, það er uppleggið í þessu máli að Ríkisútvarpið er og verður í eigu ríkisins og engin áform um að breyta því heldur skapa því það rekstrarumhverfi sem hæfir sveigjanlegum fjölmiðli.