132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[23:18]
Hlusta

Jón Kr. Óskarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ó, þetta er indælt stríð. Ég er með tvær fyrirspurnir til hæstv. menntamálaráðherra. Önnur fyrirspurnin er sérstaklega vegna þess að í dag eru 33 ár síðan gos hófst í Vestmannaeyjum. Þar var ég starfandi sem loftskeytamaður þegar gosið hófst. Ég skildi þá hvers virði Ríkisútvarpið var. Þess vegna spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort ekki sé öruggt að Ríkisútvarpið sé sá öryggisventill sem ég tel að eigi að vera og vísa þar í 11. tölulið 3. gr. í frumvarpinu.

Á hinn bóginn spyr ég hæstv. menntamálaráðherra um réttindi starfsmanna þegar þetta verður einkavætt, gert að hlutafélagi eða hvað það skal heita. Hvað með veikindarétt starfsmanna eftir þá breytingu? Ég veit að sem opinberir starfsmenn hafa þeir veikindarétt í 6–12 mánuði í dag, eftir starfsaldri. Hver verða réttindi starfsmanna Ríkisútvarpsins þegar þessu verður breytt?

Herra forseti. Ég vil minnast einnig á tekjuöflun Ríkisútvarpsins. Ég tek undir með virðulegum þingmanni Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi nefskatt á íbúðir og framlag af fjárlögum að hluta. Mér hrýs hugur við nefskatti á alla meðlimi fjölskyldunnar. Ég skal nefna að ég á barnabörn sem eru þríburar, sem eru að verða 12 ára, stúlkur í fjölskyldunni er einnig drengur sem er einu ári yngri. Þegar þau verða 18 ára, miðað við frumvarpið, ættu þau að greiða 81 þús. kr. á ári fyrir afnot af fjölmiðlinum. Hv. þingmaður Hjálmar Árnason benti á hugsanlega félagslega aðgerð en mér hugnast ekki sú aðferð.