133. löggjafarþing — 49. fundur,  9. des. 2006.

ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

408. mál
[17:37]
Hlusta

Þórdís Sigurðardóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma í pontu og lýsa ánægju minni yfir því frumvarpi sem um ræðir sem er mikilvægt málefni. Það varðar skipan mála á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kjölfar samnings um skil Bandaríkjamanna á svæðinu til íslenskra stjórnvalda. Um er að ræða m.a. að hinu nýskipaða Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar ehf. er falin umsýsla á því starfssvæði sem tilheyrir þeim og geti nú hafið framkvæmdir á því nauðsynlega hlutverki sem þeim er ætlað. Einnig gefst möguleiki fyrir þau sveitarfélög sem eiga lönd að því svæði sem hefur talist til varnarsvæðisins á Keflavíkurflugvelli að vinna sameiginlega að skipulagsmálum svæðisins og hefja markvissa vinnu að framtíðaruppbyggingu á svæði sem þeir eiga tilkall til.

Þriðja og ekki síður mikilvægt mál varðar málefni Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli og skipan fimm manna nefndar sérfræðinga sem hafa það að markmiði að undirbúa færslu á stjórnun og rekstri flugvallarins yfir til samgönguyfirvalda. Er það tímabært og fagnaðarefni að sambærilegur rekstur og sérfræðiþekking í málefnum tengdum flugi sameinist nú í einu og sama ráðuneytinu. Sameiningin er tímabær nú, ekki síst sökum þeirrar fjárhagslegu hagræðingar sem í henni felst og gæti komið til móts við aukinn kostnað, t.d. samfara hertum öryggiskröfum.

Nú er þess skammt að bíða að Keflavíkurflugvöllur verði loksins málefni samgönguyfirvalda og hluti af samgönguáætlun í framtíðinni. Ég óska starfsfólki og sérfræðingum sem sinna hinum ýmsu störfum tengdum flugmálum til hamingju með það frumvarp sem hér er til afgreiðslu, svo og íbúum og bæjar- og sveitarstjórnum í Garði, Sandgerði og Reykjanesbæ.