135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

húsakostur fangelsa og lögreglunnar.

[10:59]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Varðandi fangelsisuppbygginguna þá hefur það mál verið margrætt hér og þar er starfað samkvæmt alveg skýrri áætlun. Fangarýmum hefur verið fjölgað á Kvíabryggju. Verið er að endurnýja fangelsið á Akureyri og það verður væntanlega tekið í notkun í mars. Komnir eru fjármunir til að ráðast í næsta áfanga á Litla-Hrauni. Síðan er það fangelsið á höfuðborgarsvæðinu sem er í nokkru uppnámi ef lóðin er ekki til staðar og það er sérstakt viðfangsefni. Og loks er það sú hugmynd sem ég nefndi hér og hefur verið könnuð og þeirri könnun er ekki lokið, að sameina lögreglustöðina og fangelsið sem verður þá minna í sniðum en upphaflega var gert ráð fyrir en þeim mun meiri áhersla lögð á uppbyggingu á Litla-Hrauni.