135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[16:56]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Hæstv. forseti. Vinur er sá er til vamms segir. Þetta er gamalt íslenskt máltæki sem við þekkjum vel, ég er voða hrifin af gömlum íslenskum máltækjum.

Það gleður mig ósegjanlega að fulltrúar allra flokka hafa komið hingað upp og lýst þeirri skoðun sinni að Alþingi beri að fordæma ólöglega og ómannúðlega meðferð á föngum í Guantanamo og að þeir vilji að Alþingi beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að þessum búðum, sem og öðrum sambærilegum búðum sem finnast, verði lokað. Samstaða allra þingmanna í þessu máli eykur á virðingu Alþingis.

Því vil ég leyfa mér að hvetja hv. þingheim til þess að taka jákvætt undir þessa tillögu eins og þeir þingmenn sem talað hafa hér í dag hafa gert. Nú er lag.