135. löggjafarþing — 49. fundur,  17. jan. 2008.

samvinna um öryggis- og björgunarmál milli Vestur-Norðurlandanna.

274. mál
[17:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig er ég ekki ósammála því sem hv. þm. Árni Johnsen sagði hér. Ég lít hins vegar svo á að við þurfum að koma á þessu samstarfi. Það verður best gert með því að við reynum að sýna mönnum hvað við höfum byggt upp sjálfir á Íslandi, að hverju við búum í björgunarsveitum okkar o.s.frv. Það er rétt að svo kann að vera að Danir hafi þau viðhorf að þeir eigi að sjá um björgunarmálin á Grænlandssundi eða í sundinu milli Íslands og Grænlands. Ég held hins vegar að það sé afar nauðsynlegt að við náum að kynna mönnum hvernig við höfum byggt upp björgunarmál okkar, sem ég held að sé að mörgu leyti til fyrirmyndar, og reynum að koma á því virka samstarfi milli þessara eyþjóða sem ég álít að þessi tillaga fjalli sérstaklega um.