139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

afgreiðsla fjárlaga.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú vill svo til að ég hef verið heldur lengur á þingi en hv. fyrirspyrjandi og hef farið í gegnum mörg fjárlög síðustu áratugina, m.a. fjárlög sem sjálfstæðismenn hafa staðið að þar sem þeir hafa átt fjármálaráðherrann. Það er ekkert nýtt að tekjuhliðin liggi ekki fyrir. Mér er ekki alveg kunnugt um það varðandi þessa liði, ég hélt að þeir lægju fyrir, (Gripið fram í.) en ég hef oft og iðulega orðið vör við það á tíð minni í þessu húsi að tekjuhliðina hefur vantað og það hefur verið búið að afgreiða gjaldahliðina. Það er ekkert nýtt í því sem hv. þingmaður setur hér fram og ég veit ekki betur en að við séum að fara í 3. umr. og að fjárlaganefnd sé við það, ef hún er ekki búin, að afgreiða fjárlagafrumvarpið til 3. umr. Þetta ætti þá hvort tveggja að liggja fyrir. Ég veit ekki betur.