139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

afgreiðsla fjárlaga.

[10:35]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg dæmigert svar. Þetta fjárlagafrumvarp er bara tilraunaverkefni á útgjaldahlið og enn er óljóst hvað verður á tekjuhlið. Það getur vel verið að það sé rétt — ég veit náttúrlega að gjaldahlið hefur verið samþykkt áður en tekjuhliðin hefur verið fullkomlega tilbúin — en við erum að tala um að hún er enn þá í nefnd eftir 1. umr. fjárlagafrumvarps sem hefur tekið stórkostlegum breytingum frá því að það var lagt fram. Hagvaxtarspá sem er forsenda fjárlagafrumvarpsins brást nánast sama dag og frumvarpið var lagt fram og menn eru látlaust að hræra í útgjaldahliðinni. Menn virðast ekki einu sinni geta tryggt að fullu stuðning við málið innan annars stjórnarflokksins. (Gripið fram í.)

Það er verið að tala um að vanda þurfi vinnubrögðin. Það kemur mér mjög mikið á óvart í ljósi allra þeirra yfirlýsinga sem gefnar hafa verið að hæstv. forsætisráðherra skuli nú grípa til þess að segja: Ja, þetta hefur verið gert einhvern tímann áður. Þess vegna er þetta allt í lagi. Þetta veldur mér miklum vonbrigðum og það er augljóst að svona geta menn ekki staðið (Forseti hringir.) að málum.