139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[12:51]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu eru fjölmargir utanaðkomandi þættir utan fjárlaganna sem við ráðum ekki við. Svo sem efnahagsframvinda í Evrópu og í okkar markaðslöndum og annað slíkt sem að sjálfsögðu hefur áhrif. Við getum best gert í því að gera það vel sem við höfum tök á, það eru ríkisfjármálin. Ég segi bara að gangi það í grófum dráttum eftir að við náum þeim árangri á árinu 2011 sem að er stefnt núna með forsendum eins og þær liggja fyrir við 3. umr. fjárlaga, erum við komin langan veg úr 215 milljarða halla ársins 2008, úr 140 milljörðum 2009, sem var mun betri útkoma en fjárlögin sem gerðu ráð fyrir 172 milljarða halla, úr einhverjum 75 milljarða halla í ár, sem er mun betri útkoma en fjárlög gera ráð fyrir sem reiknuðu með 98,9 milljarða halla, og niður í 37. Þetta verður ekki á spjöldum sögunnar talinn lítill árangur við erfiðar aðstæður.

Upplýsingarnar sem ég get veitt með fyrirvara, þetta eru bráðabirgðatölur frá Fjársýslunni um útkomu nóvembermánaðar, glöddu mig miklu meira en hitt. Ég ligg spenntur yfir þessum tölum þegar þær koma í hverjum mánuði með þeim fyrirvörum sem verður að hafa á slíku. Það er þannig í grófum dráttum að tekjuáætlunin er komin aftur í hús, það er vissulega frávik frá því hvernig tekjurnar eru saman settar. Tekjuskatturinn er nokkuð undir. Þar virðast ákveðin mistök hafa átt sér stað í áætlunargerðinni, en nánast allar aðrar tekjur að frátöldu bensíngjaldi eru komnar upp í áætlun.

Ég get meira að segja glatt hv. þingmenn sem hafa haft miklar áhyggjur af því á undanförnum mánuðum að við höfum gengið svo hart fram í skattlagningu á áfengi að tekjurnar muni hrynja. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson kann ekki að hafa verið einn af þeim. En hvað er að gerast í nóvembermánuði? Það stefnir hreinlega í að tekjuáætlunin í sölu á áfengi standist. Það þýðir að þessi áætlunargerð var raunhæf og skattlagningin hefur ekki verkað (Forseti hringir.) til þess samdráttar sem margir óttuðust, Þá hlógu Steingrímur, þingforseti og fleiri þingmenn! ætli ég viti hvort á að orða það (Forseti hringir.) svo í þessu tilviki. En almennt talað er tekjuáætlun sem sagt að standa sig.