139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:49]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Vissulega hafa orðið, eins og ég sagði í ræðu minni, miklar breytingar á fjárlagafrumvarpinu frá því það var lagt fram í vor. Mér er sagt af mér fróðari mönnum á þessum vettvangi að líklega hafi ekki oft verið gerðar jafnmiklar breytingar á fjárlagafrumvarpi. Það segir tvennt að mínu mati, að það hafi verið vilji til að gera breytingar, í fyrsta lagi, af hálfu stjórnarmeirihlutans að gera breytingar á frumvarpinu og síðan að minni hlutinn hafi haft árangur sem erfiði. Þetta segir mér að sá tími er vonandi liðinn að hér séu lögð fram frumvörp sem menn gangi með óbreytt í gegnum alla umræðuna og afgreiða síðan að lokum án umræðu eða heimilda til að gera breytingar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þeir sem lögðu upp í þá vegferð í haust, hvort það hafi verið hv. þm. Kristján Þór Júlíusson eða aðrir, að berja frumvarpið niður, jafnvel rústa því eða snúa því á hvolf, þeim mistókst herferðin. Við erum með frumvarp sem gefur sömu heildarmynd á útgjöldum ríkisins og lagt var upp með og heildarmynd af rekstrinum. Það sýna allar tölur varðandi breytingar sem hafa orðið frá 1. umr. í dag þar sem frumjöfnuður er nánast sá sami af vergri þjóðarframleiðslu og lagt var af stað með.

Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns um ýmislegt sem við höfum ekki rætt, um dulinn halla sem maður nefnir og fleira. Það kemur ekki fram í fjárlagafrumvarpinu með beinum hætti. Við þurfum að taka á því og höfum rætt það í fjárlaganefnd hvernig við drögum fram í gögnum úr bókhaldi ríkisins, ríkisreikningi og áætlunum með betri hætti en hingað (Forseti hringir.) til hefur verið gert. Við þurfum að vinna í því og munum örugglega gera það saman.