139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Það er afskaplega mikilvægt að fara yfir málin sem tengjast fjárlögunum, þetta eru nú ekki litlir hagsmunir. Ég vildi nota tækifærið og spyrja hv. þingmann af því ég veit að hann er áhugamaður um málið og þekkir vel til, enda hefur hann bæði setið í hv. fjárlaganefnd og hv. heilbrigðisnefnd og er málið því skylt. Ég vildi spyrja hann að sömu spurningu og ég spurði hv. þm. Björn Val Gíslason áðan. Hv. þm. Björn Valur Gíslason brást hins vegar frekar önugur við og svaraði ekki efnislega. Ég á von á að hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson muni nálgast málið með öðrum og meira upplýsandi hætti.

Eins og við vitum vantar hvorki meira né minna en 3.000 milljónir í Sjúkratryggingar Íslands eins og kynnt hefur verið fyrir hv. fjárlaganefnd og hv. heilbrigðisnefnd. Við vitum líka að svipuð staða var uppi á síðasta ári. Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við að hæstv. ráðherra og ríkisstjórn voru ekki með neina stefnumótun um hvernig ætti að nálgast þennan niðurskurð, með öðrum orðum var engin stefna um það. Því fór sem fór og hallinn hefði verið 2.800 milljónir ef ekki hefði komið til gengishagnaður sem gerði það að verkum að hallinn á Sjúkratryggingum Íslands varð 1.800 milljónir á þessu ári. Ríkisendurskoðun lagði sérstaka áherslu á að mótuð yrði pólitísk stefna af hendi hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihluta. Ég vildi þess vegna fá að vita hjá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni hver stefnan væri varðandi þennan mikilvæga þátt, þessar 3.000 milljónir?