139. löggjafarþing — 49. fundur,  15. des. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[19:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það hefði verið ráð ef hæstv. heilbrigðisráðherra hefði haft hv. þm. Þuríði Backman með sér í ráðum þegar hann lagði fram tillögu sína um fjárlagagerðina. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin, og hv. þingmaður var að segja það, var bara einfaldlega ekki tilbúin í þessa umræðu um fjárlagafrumvarpið þegar kom að heilbrigðismálunum. (Gripið fram í.) Það var algjörlega — Af hverju er þá verið að draga til baka allar tillögurnar meira og minna? Í fyrsta lagi af því að ekkert samráð var haft við starfsmenn á viðkomandi svæði og það var ekki einu sinni samráð milli stjórnarflokkanna, ég tala nú ekki um við stjórnarandstöðuna, hún er náttúrlega ekki með í ráðum hvað þetta varðar.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagði: Já, ríkisstjórnin ætlar að halda áfram atvinnuuppbyggingu á norðaustursvæðinu, það er bara ekki sama hvernig það er. Ég óttast svona svör, ég verð að segja að ég óttast nákvæmlega svona svör þegar að þessu kemur því að (Gripið fram í.) þetta minnir mig á gagnaversmálið sem ég minntist á áðan. Það er alltaf verið að biðja um eitthvað annað. Ég er ekki eingöngu að tala um álver í þessu sambandi, en þegar eitthvað annað kemur er móast við og þvælst fyrir í kerfinu. Það vill svo til að það eru meira og minna, þetta geri ég ekki endilega af einhverri löngun til að hossa Samfylkingunni sem hefur líka þvælst fyrir hinum og þessum málum, Vinstri grænir sem hafa móast við í þeim málum sem skipta okkur máli til að ýta af stað atvinnuuppbyggingu. Við vitum það. Við höfum fylgst með því og við höfum séð hvernig sumir hv. þingmenn haga sér til að reyna að koma málum sínum áfram, m.a. við gerð fjárlaga. Ég er ekki að segja að hv. þm. Þuríður Backman sé þar í hópi, enda hefur verið einstaklega gott að vinna með henni í fjárlaganefnd, en það er þessi mynd sem er alltaf verið að kalla eftir varðandi heilbrigðismálin, hún var ekki fullbúin þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram og hún var ekki fullbúin (Forseti hringir.) heldur varðandi varnarmálin þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. (Forseti hringir.) Það er verið að lappa upp á þetta núna eftir á.