140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða forsætisráðherra.

[10:58]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Eftir hrunið sem varð hér er rík krafa í íslensku samfélagi um pólitískt siðferði. Það er rík krafa um að þeir sem voru í innsta hring í hruninu axli pólitíska ábyrgð. Ríkisfjármál og efnahagsmál eru nátengd. Ríkisfjármálanefnd þar sem áttu sæti hæstv. forsætisráðherra ásamt Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna M. Mathiesen ber að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð. Ráðherra í þeirri nefnd er í innsta hring í aðdraganda hrunsins. Ég ítreka spurningu mína í ljósi þess hve mjög krafan um siðferði hefur vaxið í íslensku samfélagi: Hefur hæstv. forsætisráðherra virkilega ekki á nokkru stigi velt fyrir sér, ekki gagnvart sínum eigin flokki heldur gagnvart þjóðinni, hvort hún ber ábyrgð (Forseti hringir.) siðferðilega? Hefur hún ekki hugleitt sína stöðu með nokkrum hætti á neinum tímapunkti? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa hljóð.)