140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

hækkun á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

304. mál
[13:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við munum brátt greiða atkvæði um heilmikla skuldbindingu sem við tökumst á hendur gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem felst í því að við kaupum stofnbréf í honum. Ég bendi á að einu sinni þótti SÍS vera algjörlega óbrigðult og jafnvel sterkara en ríkið, jafnvel fimm eða tíu árum fyrir hrun þess ágæta fyrirtækis. SPRON þótti líka nánast óbrigðult og alltaf var gjaldfært þangað til um fimm árum fyrir gjaldþrot hans. Kaupþing þótti sömuleiðis afskaplega sterkt og talið var að það mundi alltaf standa við skuldbindingar sínar. Ég bendi því á að þó að ég greiði atkvæði með hækkuninni er í fólgin ákveðin áhætta, hún er reyndar mjög lítil. Ég geri ekki ráð fyrir því að miklar líkur séu á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verði gjaldþrota en hann tekur samt áhættu. Þess vegna skrifum við upp á þessa ábyrgð af því að það eru ákveðnar líkur á því að hann fari á hausinn, annars þyrfti ekki ábyrgð.